Körfubolti

Jordan táraðist í lokin á þætti sjö af „The Last Dance“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan gaf engan afslátt hvorki af frammistöðu sinni eða af því að pressa á frammistöðu liðsfélaga sinna hjá Chicago Bulls.
Michael Jordan gaf engan afslátt hvorki af frammistöðu sinni eða af því að pressa á frammistöðu liðsfélaga sinna hjá Chicago Bulls. Vísir/Getty

Það er erfitt að finna meiri keppnismann en Michael Jordan sem var líka örugglega duglegri en flestir ef ekki allir að finna sér eitthvað til að sanna í hverjum leik.

Menn urðu nefnilega að passa sig að gefa ekki Jordan tækifæri til að herja á þá næst og það var hreinlega stórhættulegt að skjóta á Jordan því það var eins og olía á eldinn. Þetta hefur komið vel fram í „The Last Dance“ þáttunum.

Sömuleiðis hafa allir séð að það var ekki aðeins erfitt að spila á móti Michael Jordan því það var líka erfitt að spila með honum í liði.

Farið var vel yfir þann hluta í öðrum þætti helgarinnar og þar höfðu liðsfélagar Jordan ýmislegt að segja. Hann sjálfur sagði líka sína hlið.

Lokasenan í þætti sjö verður eflaust ein af þeim sem verður mest spiluð af senunum í þessari heimildarmyndarröð. Við erum að tala um að þar er Michael Jordan að tala um það hvernig hann hegðaði sér gagnvart liðsfélögum sínum og hvernig hann óttast að fólk taki því að sjá hann á bakinu á þeim.

„Þegar fólk sér þetta þá heldur það kannski að ég hafi verið harðstjóri. Það er bara þeirra sýn og þau hafa aldrei unnið neitt. Ég vildi vinna en ég vildi líka að þeir myndu vinna og að þeir tækju þátt í þessu með mér,“ sagði Michael Jordan.

„Ég þarf ekki að gera þetta en ég geri þetta því ég vil ekki fara í felur með það hver ég er í raun og veru. Svona spilaði ég leikinn og þannig var mitt hugarfar. Ef þú vilt ekki spila þannig þá skaltu sleppa því að spila þannig,“ sagði Jordan áður en hann bað um pásu enda farinn að berjast við tárin.

Leikstjórinn Jason Hehir endaði sjöunda þáttinn á þessu atriði sem er mjög áhrifaríkt eins og sjá má hér fyrir ofan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.