Erlent

Frestunarárátta sett fram stærðfræðilega

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Despair.com

Kanadískur prófessor hefur búið til stærðfræðiformúlu sem lýsir frestunaráráttu.

„Aftans bíður óframs sök," hafði höfundur Laxdæla sögu eftir Guðrúnu Ósvífursdóttur, sem er auðvitað bara snyrtilegra orðalag yfir máltækið á morgun segir sá lati. En eru þeir latir sem kjósa að fresta því til morguns sem gera mætti í dag?

Prófessor Piers Steel telur svo alls ekki vera. Steel ánetjaðist sjálfur tölvuleikjum og reyndist það honum töluverður tímaþjófur. Hann hefur nú sent frá sér bókina „Frestunarjafnan: Vandamál dagsins í dag við morgundaginn" og heldur því þar fram að tuttugu prósent mannkyns séu haldin ólæknandi áráttu til að fresta því sem gera þarf.

Frestunarjafnan er einföld: Notagildi er sama sem væntingar og nauðsyn deilt með tímasetningu og viðkvæmni fyrir töfum. Eða er það kannski ekkert einfalt? Á mannamáli táknar þetta að fólk frestar því frekar að framkvæma þau verkefni sem hafa í för með sér illmælanlegan eða seinlegan ábata en síður er því frestað sem veitir einhvers konar árangur strax.

Þetta segir Steel ekki vera leti þar sem latir velti ekki fyrir sér hvort þeir ljúki verkefni af því að þeir nenna hvort sem er ekki að framkvæma það. Nánari skýringar? Frestum þeim aðeins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×