Erlent

Plane Stupid-samtökin loka Stansted-flugvelli

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mótmælendurnir klæðast skærgrænum vestum með áletruninni „Gerðu eitthvað“ sem vísar til umhverfisverndarsjónarmiða þeirra.
Mótmælendurnir klæðast skærgrænum vestum með áletruninni „Gerðu eitthvað“ sem vísar til umhverfisverndarsjónarmiða þeirra. MYND/Telegraph

Rúmlega 50 umhverfisverndarsinnar hafa lokað flugbraut Stansted-flugvallar í London.

Það var rétt upp úr klukkan þrjú í nótt að hópur 54 svarinna andstæðinga gróðurhúsalofttegunda braut sér leið inn á einu flugbraut Stansted-flugvallarins og lokuðu henni. Það er reyndar ekki algjörlega rétt að hópurinn hafi lokað flugbrautinni því að hún er þegar lokuð vegna viðgerða en hins vegar stóð til að opna hana á ný klukkan fimm í morgun.

Það er hópurinn Plane Stupid sem stendur fyrir þessum aðgerðum og felst orðaleikurinn í því að plane er ritað eins og í enska orðinu airplane eða flugvél. Tilgangurinn er að mótmæla áætlun breskra stjórnvalda um að gera aðra flugbraut á Stansted og auka þar með umferð um flugvöllinn.

Telegraph hefur eftir einum mótmælendanna að 13 prósent þess koltvísýrings sem losaður er í Bretlandi sé af völdum flugumferðar og þetta sé hreinlega ekkert vit lengur. Þá benda samtökin á fyrirætlanir um að bæta við flugbraut á Heathrow-flugvelli sem auki enn á mengunina.

Þrátt fyrir mengun er andrúmsloftið þó nokkuð gott á Stansted, lögreglan hefur handtekið fjóra en hinum fimmtíu er orðið frekar kalt, segja þeir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×