Erlent

Hæstiréttur neitar að fjalla um þjóðerni Obamas

Óli Tynes skrifar
Barack Obama.
Barack Obama.

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur vísað frá máli manns sem telur að Barack Obama geti ekki verið forseti Bandaríkjanna vegna þess að hann hafi verið breskur ríkisborgari við fæðingu.

Eitt af skilyrðum stjórnarskrárinnar fyrir því að verða forseti er að viðkomandi sé innfæddur Bandaríkjamaður.

Leo Donofrio sagði í málshöfðun sinni að Obama hafi haft tvöfaldan ríkisborgararétt þegar hann fæddist. Móðir hans var bandarísk en faðir hans sem var ættaður frá Kenya var breskur ríkisborgari.

Svipuðum málum hefur áður verið vísað frá dómi meðal annars með tilvísun til þess að Obama fæddist á Hawaii.

Annar málshefjandi hélt því fram að Obama hafi fæðst í Kenya en ekki á Hawaii. Yfirvöld á Hawaii segja hinsvegar að enginn vafi sé á því að fæðingarvottorð hans þar sé gott og gilt.

Þá hefur einnig komið í ljós tilkynning um fæðingu hans sem birt var í blaðinu Honolulu Advertiser. Í tölublaði sem kom út 13. apríl áriuð 1961 hafi verið birt tilkynning um fæðinguna og gefið upp heimilisfang foreldranna á Honululu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×