Körfubolti

Átján ára körfuboltastrákur segist hafa keypti liðið sem hann spilaði með í Ástralíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LaMelo Ball í leik með Illawarra Hawks liðinu í Ástralíu en hann ákvað svo að kaupa það með viðskiptafélaga sínum.
LaMelo Ball í leik með Illawarra Hawks liðinu í Ástralíu en hann ákvað svo að kaupa það með viðskiptafélaga sínum. Getty/Anthony Au-Yeung

Það vakti vissulega mikla athygli í Bandaríkjunum í gær þegar átján ára körfuboltastrákur og viðskiptafélagi hans tilkynntu að þeir væru búnir að kaupa ástralskt körfuboltafélag. Ástralska deildin sagði þeim þó að fara sér aðeins hægar í slíkar yfirlýsingar.

Það er ekki bara aldur kaupandans sem vakti athygli heldur einnig það að hann er kaupa körfuboltalið sem er hinum megin á hnettinum.

Liðið heitir Illawarra Hawks og leikmaðurinn er LaMelo Ball sem einn af þremur körfuboltasonum hins litríka og yfirlýsingaglaða LaVar Ball.

LaMelo Ball fór til Ástralíu til að eyða einu ári þar og auglýsa sig með því að spila með fullorðnum. Hann mátti ekki fara beint í NBA-deildina eftir gagnfræðaskólann.

Eftir að fréttirnar af kaupunum fóru út um alla bandarísku miðlana gaf NBL-deildin frá sér yfirlýsingu að kaupin væru ekki gengin í gegn heldur þyrfti deildin að samþykkja þau fyrst.

Það breytir ekki því að hinn átján ára gamali LaMelo Ball og viðskiptafélagi hans Jermaine Jackson voru búnir að ná samkomulagi við fyrrum eigendur Illawarra Hawks liðsins.

Það sem gerir þetta enn viltara er að LaMelo Ball spilaði með Illawarra Hawks í áströlsku deildinni á síðasta tímabili þar sem hann var með 17 stig, 7,4 fráköst og 6,8 stoðsendingar að meðaltali í tólf leikjum og var valinn nýliði ársins.

Eldri bróðir hans Lonzo Ball spilar í NBA-deildinni með New Orleans Pelicans og það er nánast öruggt að eitthvert NBA-liðið velji LaMelo Ball í nýliðavalinu í ár. ESPN setur hann númer tvö á nýjasta lista sínum og hann er á topp fimm hjá flestum öðrum.

Umræddur Jermaine Jackson, sem spilaði sjálfur fimm ár í NBA-deildinni, sagði að þeir félagarnir hafi ákveðið að kaupa félagið þegar þeir fréttu af miklum fjárhagslegum vandræðum þess. LaMelo Ball ætlar að einbeita sér að NBA en þeir ætla að ráða fólk til að stýra liðinu hinum megin á hnettinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×