Erlent

Gauck ber virðingu fyrir Snowden

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Joachim Gauck forseti og Angela Merkel kanslari á þingi nýverið.
Joachim Gauck forseti og Angela Merkel kanslari á þingi nýverið. Nordicphotos/AFP
Joachim Gauck Þýskalandsforseti segist bera virðingu fyrir bandaríska uppljóstraranum Edward Snowden, sem lak skjölum um stórfelldar fjarskiptanjósnir bandarískra stjórnvalda. Gauck hefur til þessa forðast að tjá sig um málið.

Í viðtali við þýska dagblaðið Passauer Neue Presse sagði hann opinberar stofnanir vissulega geta villst út af braut laga og réttar, en upplýsingar um slíkt geti orðið til þess að úrbætur verði gerðar: „Sá sem birtir þær opinberlega af samviskuástæðum á virðingu okkar skilda,“ segir Gauck.

Bandarísk stjórnvöld líta á Snowden sem föðurlandssvikara fyrir að birta upplýsingar, sem áttu að fara leynt.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur tekið allt annan pól í hæðina en Gauck forseti. Hún hefur sagt njósnirnar lýðræðisríkjum nauðsynlegar. Að öðrum kosti standi þau berskjölduð og varnarlaus.

Ummæli hennar hafa vakið hörð viðbrögð í Þýskalandi og málið orðið eitt af stóru kosningamálunum fyrir þingkosningarnar í haust.

Snowden situr enn fastur á alþjóðaflugvellinum í Moskvu, eftir meira en mánuð þar án gilds vegabréfs. Hann bíður þess að fá í hendurnar pappíra, sem rússnesk stjórnvöld hafa heitið honum og tryggja honum tímabundið dvalarleyfi í Rússlandi.

Bandaríkjaþing ræðir nú um að samþykkja refsiaðgerðir gegn ríkjum, sem veita Snowden aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×