Erlent

Kaldi Hollendingurinn

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Wim Hof, svellkaldur.
Wim Hof, svellkaldur. MYND/Getoutdoors.com

Hollendingur nokkur hyggst bæta sitt eigið heimsmet með því að dvelja í tæpar tvær klukkustundir í 20 gráða frosti.

Flestir hafa heyrt minnst á Hollendinginn fljúgandi en Wim Hof gerir ekki mikið af því að fljúga. Hann hefur hins vegar áunnið sér viðurnefnið Ísmaðurinn með því að dvelja ítrekað við frekar kuldalegar aðstæður.

Meðal þeirra má nefna þegar Hof komst á síður Heimsmetabókar Guinness fyrir að dýfa sér til sunds í sundskýlu einni klæða undir íshellu Norðurpólsins árið 2000. Til að bæta gráu ofan á svart hljóp hann svo hálft maraþon á Norðurpólnum - berfættur. Nú hefur hann sett markið enn hærra og ætlar sér að dvelja í saltblönduðu vatni við hitastigið 20 gráður undir núllinu.

Þessi 48 ára gamli Hollendingur hljómar kannski fremur kuldalegur en var samt engu að síður hinn hlýjasti í viðmóti þegar breskir fjölmiðlar ræddu við hann. Hof segir að allt sé þetta spurning um að setja hugann ofar hinu efnislega.

Með jógaástundun hafi hann öðlast hæfileika til að gæða líkama sinn sínum eigin hita sem ekkert frost fái grandað. Hvaða bækur ætli Wim Hof hafi lesið í æsku? Kannski Ísfólkið?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×