Lífið

Jón Sæmundur selur Liborius

Breytingar í Liborius. Jóhann Meunier, nýr verslunarstjóri Liborius, segir búðina hafa færst í fullorðinslegra horf eftir að hann tók við henni.
Breytingar í Liborius. Jóhann Meunier, nýr verslunarstjóri Liborius, segir búðina hafa færst í fullorðinslegra horf eftir að hann tók við henni. MYND/Valli

Jón Sæmundur Auðarson hefur selt tískuverslunina Liborius. Kaupendur eru þeir Svanur Kristbergsson, Jóhann Meunier og Þorsteinn Stephensen. Jóhann verður verslunarstjóri Liborius og hann boðar breyttar áherslur.

„Ég ætla að snúa mér að öðru. Það var of mikið fyrir mig einan að vera með þessa búð enda er ég náttúrlega myndlistarmaður fyrst og fremst," segir Jón Sæmundur Auðarson sem hefur selt tískuverslunina Liborius. Jón hefur þó ekki alfarið sagt skilið við búðina því hann verður áfram viðloðandi innkaup og stíliseringar. Hann er ánægður með þessa þróun mála. „Já, ég hef nóg að gera með mitt merki og að auki er ég að vinna fyrir Jakobínurínu."



Dior í haust Með haustinu verða jakkaföt frá Dior Homme seld í Liborius. Jóhann segir þau af öðrum standard en Íslendingar eru vanir.

Jóhann Meunier tekur við sem verslunarstjóri í Liborius. Hann telur að reynsla sín nýtist vel í búðinni. „Ég var lengi vel í París og þar kynntist ég hönnun ýmissa tískuhönnuða frá hinum og þessum löndum," segir Jóhann sem starfaði meðal annars í Collette sem er risastór búð sem þykir endurspegla allt það besta í tísku og hönnun.

 

Farinn Jón Sæmundur hefur selt Liborius. Hann verður þó áfram viðloðandi búðina.

Jóhann kaupir Liborius með þeim Svani Kristbergssyni og Þorsteini Stephensen í Hr. Örlygi. Þeir keyptu einmitt Kaffibarinn ekki alls fyrir löngu. „Það er mjög ánægjulegt að vera með þessu sterka og trausta liði. Svo verða þau viðloðandi, Jón Sæmundur og Hólmgeirsdætur, sem verða innkaupastjórar fyrir konur. Þetta er ein stór fjölskylda."

 

Áherslubreytingar. Jóhann hefur sett skýrari skil á milli kvenna- og karladeildar í versluninni.

Jóhann segist þegar vera byrjaður að gera breytingar. „Nú eru öll Dead-fötin hans Jóns Sæmundar farin og með því fer götutískan að mestu úr búðinni. Liborius færist nú í aðeins fullorðinslegra horf. Það er þegar búið að gera heilmiklar breytingar á búðinni og sumarvörurnar eru að detta inn. Stóru fréttirnar eru svo þær að við erum að taka inn Dior Homme í haust, það er mikil viðurkenning fólgin í því. Það verður líka mjög gaman að sjá íslenska karlmenn í Dior-jakkafötum. Þau eru af allt öðrum standard en við erum vön."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.