Lífið

Línudansmanía í Reykjavík

Jóhann Örn er hér í línudanssveiflu en hann fullyrðir að línudansinn lengi lífið.
Jóhann Örn er hér í línudanssveiflu en hann fullyrðir að línudansinn lengi lífið. MYND/Vilhelm

150 íslenskir línudansarar stíga sporin við undirleik Baggalúts í Laugardalshöll á laugardagskvöld á línudanshátíð. Jóhann Örn Ólafsson segir að 5-600 manns stundi línudans að staðaldri á Íslandi.

„Þetta hefur verið í lægð út á við en alls ekki inn á við. Ákveðinn kjarni stundar línudans af kappi,“ segir Jóhann Örn Ólafsson, dansari og danskennari.

Mikil línudanshátíð hófst í gær og verður fram haldið yfir helgina. Í gær var efnt til línudans í Ráðhúsinu klukkan 17.30 og verður það endurtekið í dag. Hápunktar hátíðarinnar verður á laugardagskvöldið á Broadway þar sem Rob Fowler, línudansari frá Liverpool, verður með sérstaka sýningu og klukkan 23.00 leikur svo kántrísveitin Baggalútur undir gríðarmiklum hóplínudansi í Laugardalshöll.

„Það verður magnað að sjá einhverja 150 línudansara taka sporið fyrir framan þá,“ segir Jóhann Örn.

Hann segir svo frá að línudansinn hafi komið fram á sjónarsviðið árið 1994 þegar RÚV sjónvarpaði frá Kántríbæ en þar var hópur kana af Vellinum sem steig línudans.

„Nokkru seinna var ég farinn að sýna þetta á Ömmu Lú og þá byrjar þetta.“

Jóhann Örn metur það svo að um land allt sé línudansinn stundaður af kappi af einhverjum fimm til sex hundruð manns.

„En stærsti kjarninn er hér í Reykjavík. Þetta er fólk á öllum aldri. En meðalaldurinn er kannski í kringum fimmtíu. Ég er með ansi marga hressa í tímum, til dæmis er ein áttræð sem rúllar upp öllum flóknustu dönsunum. Fólk lifir svo lengi sem dansar línudans,“ segir Jóhann Örn.

Jóhann er frábær dansari sjálfur og jafnvígur á hinar ýmsu tegundir. En hann hefur einkum lagt fyrir sig línudansinn.

„Mér fannst þetta sniðugt fyrir tólf árum og finnst það enn þá. Þetta er svo stór partur af mínu lífi og mínu lifibrauði. Þetta er svo skemmtilegt form að kenna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.