Innlent

Fóru á Þjóðminjasafnið í stað kirkjunnar

Erla Hlynsdóttir skrifar
Nokkur börn úr leikskólanum Hagaborg heimsóttu Þjóðminjasafnið í morgun á meðan hin hittu prest í Neskirkju. Þessi leið var farin eftir að ósátt foreldri gagnrýndi að engin dagskrá væri fyrir börn sem ekki færu í kirkju með leikskólanum. Ekki er um framtíðarlausn að ræða.

Móðir þriggja ára drengs á Hagaborg birti í gær grein á Facebook, sem vakti mikla athygli, um að sonur hennar væri hafður útundan þar sem fjölskyldan sé ekki kristin og að það sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að mismuna börnum eftir trúarbrögðum.

„Þetta eiginlega hófst fyrir ári þegar kirkjuferðir voru farnar á Hagaborg. Þá kom í ljós að það var ekkert í boði fyrir börn sem áttu ekki að fara í kirkju. Ég hafði samband við borgina og reyndi að leysa þetta með leikskólanum. Þetta varð á endanum þannig að hann þurfti alla vega ekki að vera heima," segir Helga Þórey Jónsdóttir, foreldri barns í Hagaborg.

Hún segir að í ár hafi staðið til að bjóða börnum sem ekki færu í Neskirkju upp á aðra dagskrá, en hún hafi síðan alls ekki verið kynnt sem valkostur. Kirkjuferðin var í morgun.

„Mitt barn fór. Í raun og veru snýst þetta ekki um að við viljum ekki að börn fari í kirkju. Heldur það að fólk hafi val. Að þú þurfir ekki að afvelja kirkjuna og setja þitt barn út á jaðarinn og ákveða að það fari ekki með hópnum. Það var mikil spenna í hópnum í morgun og allir rosa ánægðir. Krakkarnir fengu piparkökur og kakó í kirkjunni. Það er leiðinlegt að það sé ekkert í boði fyrir þá sem fara ekki með nema að sitja eftir með leikskólakennara," segir Telma Eir Aðalsteinsdóttir, foreldri barns í Hagaborg.

Málið fékk farsælan endi í Hagaskóla í dag.

„Það leystist ágætlega hjá okkur. Þeir fóru á Þjóðminjasafnið. Ég held það hafi bara verið gaman. En það var lausn sem fékkst í morgun, ekki lausn sem var kynnt öllum foreldrum. Það er áreiðanlega fullt af foreldrum á Hagaborg sem hefðu kannski frekar kosið að senda barnið sitt á Þjóðminjasafnið," segir Helga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×