Innlent

Framtakssjóðurinn selur 10% hlut í Vodafone til viðbótar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Umframeftirspurn var eftir bréfum í Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, í opna hluta hlutafjárútboðs, en því lauk í gær. 10% hlutur í félaginu var til sölu í opna útboðinu. Lokaða hluta útboðsins lauk þann 3. desember og var einnig umframeftirspurn þar.

Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut. Samtals bárust áskriftir fyrir 1.652 milljónir króna í þennan hluta eða sem nemur um 1,6 faldri umframeftirspurn miðað við þann 10% hlut sem boðinn var til sölu af Framtakssjóði Íslands.

Í lokaða hluta útboðsins mánudaginn 3. desember síðastliðinn bárust samtals tilboð fyrir 9.969 milljónir króna frá fjárfestum. Í þeim hluta voru í boði 40% hlutafjár í félaginu sem voru í eigu Framtakssjóðs Íslands. Samtals bárust því áskriftir fyrir 11.621 milljónir króna eða sem nemur um 2,2 faldri umframeftirspurn miðað við þann 50% hlut sem boðinn var.

Ætla að selja samtals 60%

Í ljósi umframeftirspurnar mun Framtakssjóður Íslands auka við framboðið og selja til viðbótar sem nemur 10% hlutafjár í Vodafone, eða samtals 60% af hlutafé félagsins. Í lokaða hluta útboðsins verða seldir samtals 164.333.265 hlutir eða sem samsvarar 49% hlutafjár og í opna hluta útboðsins verða seldir 37.053.855 hlutir eða sem samsvarar 11% hlutafjár. Við úthlutun leitaðist Framtakssjóður Íslands við að uppfylla skilyrði kauphallar um skráningu, hámarka söluverðmæti, fá að félaginu sterka langtímaeigendur og stuðla að virkum íslenskum hlutabréfamarkaði.

Samtals munu því 201.387.120 hlutir, eða sem samsvarar 60% hlut í félaginu, skipta um hendur í tengslum við töku félagsins til viðskipta á Aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland hf. Söluandvirði hlutanna er 6,3 milljarðar króna.

Framtakssjóður Íslands á eftir viðskiptin 19,7% hlut í félaginu. Sjóðurinn kom að félaginu í upphafi árs 2010 og hefur gegnt virku eigandahlutverki í félaginu frá þeim tíma. Á tímabilinu var ráðist í umfangsmikla endurskipulagningu á félaginu, bæði hvað varðar rekstur og fjármögnun sem lauk núna á haustmánuðum. Meginmarkmið Framtakssjóðsins voru að félagið uppfyllti skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár, þ.m.t. um eignarhald almennra fjárfesta og fjölda hluthafa. Niðurstaða útboðsins er í takt við þau markmið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×