Körfubolti

Leikstjóri „The Last Dance“ í sjokki yfir að Jordan samþykkti þætti sjö og átta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Jordan var ekki auðveldur viðureignar enda keppnisskapið svakalegt. Nú fáum við meira að vita um það hvernig hann hegðaði sér á bak við tjöldin.
Michael Jordan var ekki auðveldur viðureignar enda keppnisskapið svakalegt. Nú fáum við meira að vita um það hvernig hann hegðaði sér á bak við tjöldin. Getty/Brian Bahr

Það er búið að kynda vel undir spennu körfuboltaáhugafólks fyrir næstu tveimur þáttum í heimildaþáttarröðinni „The Last Dance“ eftir að leikstjórinn viðurkenndi að hafa átt von á því að Jordan myndi ekki leyfa næstu þætti.

Næstu tveir þættir af „The Last Dance“ sem eru númer sjö og átta í röðinni munu gefa áhorfendum innsýn í hvernig Michael Jordan var sem liðsfélagi og sem andstæðingur.

Það er ljóst að Jordan var mjög kröfuharður liðsfélagi og mjög kjaftfor mótherji. Nú fær körfuboltaáhugafólk frábæra og betri innsýn í það.

Gríðarlegur áhugi og áhorf hefur verið á fyrstu sex þættina af „The Last Dance“ en næstum því sex milljónir hafa horft á þá að meðaltali í Bandaríkjunum.

ESPN kynnti næstu þætti með myndbroti af sögunni þegar Michael Jordan sló niður Steve Kerr á æfingu. Það fylgir sögunni að ýmislegt annað muni koma þar í ljós með hvernig Mihcael Jordan hagaði sér á bak við tjöldin.

Hér fyrir neðan má sjá þetta athyglisverða myndbrot af þessu fræga atviki á milli Michael Jordan og Steve Kerr.

„Þegar þið sjáið þættina í næstu viku þá mun margt koma ykkur á óvart. Kannski sleppti hann (Jordan) að horfa á sjöunda þáttinn því ég trúi því varla ennþá að hann hafi gefið grænt ljós á hann,“ sagði Jason Hehir leikstjóri „The Last Dance“ í viðtali í útvarpsþættinum "Dan Patrick Show" í vikunni.

„Sagan með Steve Kerr er bara saga sem er sögð og hann vildi alveg tala um það atvik eins og Steve líka. Fjársjóðurinn varðandi þessar upptökur kemur vel í ljós í næstu þáttum. Við tæklum það í þáttum sjö og átta hvernig það var að spila með Mihcael og hvernig var að spila á móti Michael,“ sagði Jason Hehir.

Hér fyrir neðan má sjá brot úr næsta þætti af „The Last Dance“ sem fjallar um það að vera liðsfélagi Michael Jordan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×