Lífið

Kenndi frá jökli í gegnum Skype

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Páll Ásgeir talaði um mikilvægi jökla í beinni útsendingu
Páll Ásgeir talaði um mikilvægi jökla í beinni útsendingu MYND/ÚR EINKASAFNI
„Á meðan landið var bundið frostböndum föstudaginn síðastliðinn var haldin fyrsta Skype kennslustund mannkynssögunnar frá jökli,“ segir Páll Ásgeir Davíðsson, framkvæmdastjóri Vox Naturae, en nemendur í Ohio í Bandaríkjunum og Newcastle í Bretlandi áttu kennslustund með Páli Ásgeiri um mikilvægi jökla þar sem hann stóð uppá Gígjökli.

Nemendurnir sem sátu í kennslustofum sitthvoru megin við Atlantshafið fengu þannig tækifæri til að komast í tengsl við jökulinn.

„Við fórum inní íshelli, sáum beljandi jökulár, skoðuðum hversu mikið jökullinn hafði hopað og ræddum af hverju jöklar skiptu máli fyrir börn sem byggju langt frá fjöllum og á suðlægari slóðum,“ bætir Páll við.

Páll Ásgeir
Um er að ræða lið í undirbúningi fyrir Celebrating Glaciers herferð Vox Naturae sem verður alþjóðleg vitundarvakning og menntunarátak um jökla, snjó og ís. 

„Nemendur, kennarar og jafnvel tæknimenn voru gagntekin af því að upplifa jökulinn og af þeim skilaboðum sem að jökullinn færir um hlýnandi loftslag, en því er spáð að jöklar verði mestmegnis horfnir af Íslandi á næstu 150-200 árum ef það heldur áfram sem horfir,“ segir Páll Ásgeir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.