Innlent

Óttast að lögreglan þoli ekki niðurskurðinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Hauksdóttir er málshefjandi í umræðunum á Alþingi.
Vigdís Hauksdóttir er málshefjandi í umræðunum á Alþingi.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist velta því fyrir sér hvort búið sé að þrengja það mikið að lögreglunni með niðurskurði að hún geti ekki lengur sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Vigdís er málshefjandi í utandagskrárumræðu um stöðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag.

Vigdís segir að þótt starfsemi lögreglunnar um allt land skipti máli sé hún einkum að beina sjónum sínum að höfuðborgarsvæðinu í þessum umræðum. „Hérna eru stóru glæpirnir og hérna eru mótmælin," segir Vigdís. Hún segir að mannlegi þátturinn í starfi lögreglumanna sé sér hugleikinn. „Þeir eru oft undir rosalegu álagi og lögreglumenn eru bara mannlegir eins og aðrir," segir Vigdís. Lögreglumenn þurfi að standa vaktina og verja ríkisstjórn og Alþingi gagnvart þeirri óánægju sem er í samfélaginu. „Og bakvið búningin eru bara venjulegir borgarar, almennir borgarar, sem eiga bara við sömu vandamál að stríða og aðrir," segir Vigdís. Hún segir brýnt að lögreglumenn hafi málsvara því að þeir hafi ekki verkfallsrétt og skorti því úrræði sem margar aðrar stéttir hafa til að bregðast við niðurskurði.

Vigdís segir að sín skoðun sé sú að stjórnvöld forgangsraði rétt við niðurskurð. Grunnstofnanir á borð við lögregluna og Landhelgisgæsluna geti ekki tekið allan þann niðurskurð á sig sem boðaður er. Betra sé að skorið sé niður í raunverulegum gæluverkefnum stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×