Körfubolti

Rond­ey rotaði drukkinn Ís­lending í mið­bænum eftir kyn­þátta­níð en nef­braut ó­vart Booker í leiðinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Teitur gerði upp ferilinn hjá Rikka G í gær og sagði margar skemmtilegar sögur af ferlinum.
Teitur gerði upp ferilinn hjá Rikka G í gær og sagði margar skemmtilegar sögur af ferlinum.

Teitur Örlygsson segir að það hafi verið margar sögurnar af Bandaríkjamanninum Rondey Robison sem lék í sex ár með Njarðvík á árunum 1990 til 1996. Ein þeirra gerðist í miðbæ Reykjavíkur þegar drukkinn Íslendingur kallaði hann illum nöfnum.

Teitur gerði upp magnaðan feril sinn hjá Rikka G í Sportinu í kvöld sem var sýnt í gær en Teitur vann hvern titilinn á fætur öðrum; sem leikmaður og þjálfari. Einn af fimm bestu samherjum Teits var Rondey Robison og Teitur segir að það hafi verið margar sögurnar af þessum frábæra leikmanni.

„Það eru margar frægar sögur af honum. Ein þeirra er þegar þeir voru á djamminu í Reykjavík, ég veit ekki hvort ég megi segja þetta, en þá var hann og Frank Booker saman fyrir framan veitingastað í Reykjavík. Þeir sitja fram í og þá kemur leiðinlega dónalegur Íslendingur,“ sagði Teitur en Frank Booker lék hér á landi frá 1991 til 1995. Hann lék með ÍR, Val og Grindavík.

„Hann var dauðadrukkinn og byrjaði að kalla þá þessu n-orði sem þeir þola ekki. Þeir urðu mikið fyrir aðkasti á þessum árum þessir strákar. Þeir gerðu ekkert og Booker skrúfar niður rúðuna og reynir að róa manninn niður en hann heldur áfram og er kominn með hausinn inn í bílinn að kalla þetta og niðurlægja þá.“

„Þangað til að okkar maður Rondey sem situr í farþegasætinu fær nóg og þetta voru engir venjulegir handleggir á honum. Hann teygir sig yfir og gefur honum einn á lúðurinn. Það heyrist bara höggið og gaurinn dettur á bakið alveg kaldur nema hann tók nefið af Booker í leiðinni og nefbraut hann líka. Booker var allur í blóði líka og það dró ekkert úr högginu. Hann rotaði hinn líka,“ sagði Teitur.

Klippa: Sportið í kvöld - Teitur með sögu af Rondey Robison

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.