Erlent

Djammað í Jakarta

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jakarta sveipuð næturhúmi.
Jakarta sveipuð næturhúmi. MYND/Indonesia.cz

Höfuðborg Indónesíu er á góðri leið með að verða hin nýja paradís næturlífsins. Jakarta er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar neistandi næturlíf ber á góma.

Þetta gæti þó farið að breytast fyrr en varir. Nú er nefnilega svo komið að efnahagslíf Indónesíu blómstrar sem aldrei fyrr eftir töluverðar þrengingar í lok tíunda áratugarins og Jakarta fer engan veginn varhluta af því. Til að mynda hefur hinn nafntogaði Buddha Bar nú opnað dyr síns fyrsta útibús í Suðaustur-Asíu þar en höfuðstöðvar hans eru í París.

Þá spretta vínbarir og fínir matsölustaðir upp eins og gorkúlur og Indónesar flykkjast á vínsmökkunarnámskeið sem aldrei fyrr, nokkuð sem fáa hefði órað fyrir í ríki sem er heimili flestra múhameðstrúarmanna í heimi.

Þetta er þó ekki lífsstíll meirihlutans en helmingur hinna 226 milljóna Indónesa lifir á innan við 300 krónum á dag og býr við tiltölulega kröpp kjör á þeim 17.508 eyjum sem mynda þetta stærsta eyjaklasaríki veraldar. Þeir fengju sér að minnsta kosti ekki dýrasta rauðvínið á Buddha-barnum sem kostar 10 milljónir rúpía, um 118.000 krónur, flaskan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×