Viðskipti innlent

Sæstrengir tengi eyjar Norður-Atlantshafsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samstarfshópur fimm þjóða hefur kynnt hugmynd um sæstrengjanet Norður-Atlantshafseyja sem myndi tengja Ísland, Grænland, Færeyjar og Hjaltlandseyjar við raforkukerfi Evrópu. 

Upphaf verkefnisins má rekja til samstarfssamnings um orkumál sem ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Júlíusdóttir gerðu við Færeyinga fyrir þremur árum. Samningurinn var undirritaður í Þórshöfn í mars 2013. 

„Verkefnið vatt upp á sig og endaði með því að vera samstarf fimm landa þar sem um er að ræða Grænland, Ísland, Færeyjar, Hjaltlandseyjar og Noreg,“ segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, rafmagnsverkfræðingur hjá Orkustofnun, sem vann að verkefninu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. 

Og nú liggur fyrir skýrsla, sem kynnt var á ársfundi Orkustofnunar á dögunum, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tæknilega sé mögulegt að tengja eyjar Norður-Atlantshafs með sæstreng milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlands og svo Noregs eða Bretlands. 

„Það er svona eiginlega mat okkar að þetta muni gerast. Þetta er bara spurning um tíma og það gerist einn hlekkur í einu,“ segir Erla Björk.

Niðurstaða skýrsluhöfunda er sú að tæknilega sé mögulegt að leggja sæstreng milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlandseyja, Noregs og Bretlands.Grafík/Gvendur.
Fyrsti hlekkurinn gæti orðið sá sem nú er mest rætt um; milli Íslands og Bretlandseyja.

„Svona verkefni eru gríðarlega stór, og sérstaklega í samhengi við íslenskan efnahag. Þannig að ég held að það sé alveg nógur biti í háls fyrir okkur að skoða einn í einu. Og þessi er kominn lengst á veg í skoðun.

En það varð eiginlega afurð af þessu verkefni að Færeyingar fá að fylgjast með, því að þeir voru eiginlega alveg á því að það yrði mjög súrt í broti ef við færum framhjá Færeyjum með streng og að það hefði aldrei verið skoðað hvort hægt væri að taka hann í land, og Færeyingar gætu þá eitthvað nýtt sér hann í leiðinni.“

Í skýrslunni er sérstök athygli vakin á gríðarlegum orkumöguleikum Grænlands en áætlað er að óbeislað vatnsafl þar sé tífalt meira en á Íslandi.

„Ég held bara á næstu áratugum þá eru Grænlendingar ekki með innviði til þess að standa í því. En við gætum kannski hjálpað þeim með því að byggja þá upp með því að aðstoða þá við að nýta þessar gríðarlegu auðlindir sem þeir eiga.“

Erla Björk hvetur til umræðu um málið en á endanum sé það í höndum stjórnmálamanna að móta stefnuna. 

„Þetta er fyrst og fremst spurning um pólitíska ákvörðun. Viljum við nýta þessa orku hér eða viljum við flytja hana út? Og svo er það náttúrlega spurning hver er tilbúinn til að fjármagna þetta. En það er eins og það séu ýmsir til í að setja peningana sína í svona streng. Þannig að einhverjir hafa trú á þessu.“


Tengdar fréttir

Sæstrengur gæti skilað áttfalt hærra orkuverði

Nýir samningar sem norsk orkufyrirtæki hafa gert við bresk stjórnvöld um sölu vindorku í Bretlandi benda til að gífurlegur hagnaður geti orðið af raforkusölu um sæstreng frá Íslandi.

Skálað fyrir bestu vinum Íslendinga

Tveir íslenskir ráðherrar gerðu sér sérstaka ferð til Færeyja í vikunni til að þakka Færeyingum þann vinarhug sem þeir sýndu Íslendingum eftir hrunið. Ritað var undir viljayfirlýsingu í Þórshöfn um að efla samstarf frændþjóðanna, einkum á sviði orkumála og nýsköpunar. Þau Katrín Júlíusdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, ráðherrar fjármála- og atvinnuvega, fengu hlýjar móttökur af hálfu Færeyinga, sem sýndu þeim nokkrar helstu perlur eyjanna, eins og Sörvogsfjörð og þorpið Böur en einnig öflug atvinnufyrirtæki eins og laxeldisstöðvar, en eldislax er orðinn verðmætasta útflutningsvara Færeyja.

Vilja sæstrenginn fyrir 2020, fjárfestar mjög áhugasamir

Þróunarstjóri helsta raforkufyrirtækis Bretlands segir að sæstrengur milli Íslands og Bretlands geti verið tilbúinn innan sjö ára og hvetur stjórnvöld ríkjanna til að hefja nú þegar formlegar viðræður um verkefnið.

Segir sæstrengsmál í hárréttum farvegi

Ragnheiður Elín Árnadóttir vísar því á bug að vinna stjórnvalda við mat á kostum og göllum við lagningu sæstrengs sé í hægagangi. Hún segir samskipti við Breta um málið í eðlilegum farvegi og niðurstaðna úr undirbúningsvinnu að vænta.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.