Upphaf verkefnisins má rekja til samstarfssamnings um orkumál sem ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Júlíusdóttir gerðu við Færeyinga fyrir þremur árum. Samningurinn var undirritaður í Þórshöfn í mars 2013.
„Verkefnið vatt upp á sig og endaði með því að vera samstarf fimm landa þar sem um er að ræða Grænland, Ísland, Færeyjar, Hjaltlandseyjar og Noreg,“ segir Erla Björk Þorgeirsdóttir, rafmagnsverkfræðingur hjá Orkustofnun, sem vann að verkefninu fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.
Og nú liggur fyrir skýrsla, sem kynnt var á ársfundi Orkustofnunar á dögunum, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tæknilega sé mögulegt að tengja eyjar Norður-Atlantshafs með sæstreng milli Grænlands, Íslands, Færeyja, Hjaltlands og svo Noregs eða Bretlands.
„Það er svona eiginlega mat okkar að þetta muni gerast. Þetta er bara spurning um tíma og það gerist einn hlekkur í einu,“ segir Erla Björk.

„Svona verkefni eru gríðarlega stór, og sérstaklega í samhengi við íslenskan efnahag. Þannig að ég held að það sé alveg nógur biti í háls fyrir okkur að skoða einn í einu. Og þessi er kominn lengst á veg í skoðun.
En það varð eiginlega afurð af þessu verkefni að Færeyingar fá að fylgjast með, því að þeir voru eiginlega alveg á því að það yrði mjög súrt í broti ef við færum framhjá Færeyjum með streng og að það hefði aldrei verið skoðað hvort hægt væri að taka hann í land, og Færeyingar gætu þá eitthvað nýtt sér hann í leiðinni.“
Í skýrslunni er sérstök athygli vakin á gríðarlegum orkumöguleikum Grænlands en áætlað er að óbeislað vatnsafl þar sé tífalt meira en á Íslandi.
„Ég held bara á næstu áratugum þá eru Grænlendingar ekki með innviði til þess að standa í því. En við gætum kannski hjálpað þeim með því að byggja þá upp með því að aðstoða þá við að nýta þessar gríðarlegu auðlindir sem þeir eiga.“
Erla Björk hvetur til umræðu um málið en á endanum sé það í höndum stjórnmálamanna að móta stefnuna.
„Þetta er fyrst og fremst spurning um pólitíska ákvörðun. Viljum við nýta þessa orku hér eða viljum við flytja hana út? Og svo er það náttúrlega spurning hver er tilbúinn til að fjármagna þetta. En það er eins og það séu ýmsir til í að setja peningana sína í svona streng. Þannig að einhverjir hafa trú á þessu.“