Innlent

Hjartahlýja í verki

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Lilja Sigurðardóttir bjó til viðburð á facebook og bað konur um að senda sér flíkur.
Lilja Sigurðardóttir bjó til viðburð á facebook og bað konur um að senda sér flíkur. Mynd/Daníel
Konur alls staðar af landinu prjónuðu meðal annars vettlinga, húfur, peysur, vesti og trefla handa konum í Konukoti.
Í október setti Prjónasmiðjan Tína upp atburðinn Hjartahlýja á facebook-síðu sinni. Tilgangurinn var að virkja fólk til að prjóna alls kyns flíkur handa heimilislausum konum á Konukoti. Nýlega fór Lilja Sigurðardóttir, sem hafði umsjón með verkefninu, með fjóra fulla kassa af flíkum í Konukot og var henni tekið fagnandi.

„Við gáfum þessu mánuð og viðbrögðin voru mun betri en ég þorði að vona,“ segir Lilja. „Við fengum helling af fallegum flíkum; húfum, vettlingum, sokkum, peysum, vestum og fleiru. Mér þykir ósköp vænt um þessi góðu viðbrögð.“

Lilja segir konur alls staðar af landinu sem fylgjast með face­book-síðunni hafi lagt sitt af mörkum. „Mig grunar að margar af þeim séu duglegar prjónakonur sem áttu ef til vill eitthvað tilbúið í sínum fórum. En það gladdi þær greinilega mikið að geta lagt sitt af mörkum. Við fengum oft skrifaðar orðsendingar með þar sem þakkað var fyrir að fá að taka þátt í verkefninu. Maður fann hlýjuna skína í gegn.“

Lilja segist hafa búist við einu vettlingapari hér og sokkapari þar en sú var ekki raunin. „Sumir sendu marga hluti, til dæmis sendi ein sex lopapeysur og önnur eflaust um tuttugu húfur. Það er ekki nóg með að flíkurnar séu margar heldur eru þær virkilega vandaðar og fallegar. Ég veit að konurnar sem lögðu okkur lið gerðu það virkilega frá hjartanu og prjónuðu og hekluðu flíkurnar með umhyggju og góðvild.“

Kristín Helga Guðmunds­dóttir, verkefnastjóri Konukots, segir mikið þakklæti ríkja í Konukoti. 

„Hlýhugurinn skilaði sér vel til okkar. Það var auðvitað gott að fá hlýjar flíkur fyrir veturinn en sagan á bakvið flíkurnar er sú sem hlýjar mest og fallegi hugurinn sem fylgir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×