Hans lið hafði þá tapað gegn Njarðvík í hörkuleik í úrslitakeppninni. Lykilmanni ÍR-inga, Kevin Capers, var vísað af velli í lok þriðja leikhluta fyrir að slá til Jóns Arnórs Sverrissonar.
„Ég er farinn að trúa á samsæri. Á hverju ári henda þeir einum mikilvægum leikmanni úr mínu liði. Annars óska ég Njarðvík til hamingju með fyrsta sigurinn,“ skrifaði Borche á Facebook-síðu Njarðvíkinga í gærkvöldi.

Borche lenti í því á síðasta ári að Ryan Taylor var dæmdur í leikbann og nú er Capers líklega einnig á leiðinni í leikbann. Mál hans verður væntanlega tekið fyrir í dag.