Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - ÍR 76-71 | Njarðvík hafði betur í hörkuleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eric Katenda skoraði tíu stig fyrir Njarðvík.
Eric Katenda skoraði tíu stig fyrir Njarðvík. vísir/bára
Njarðvík tók forystuna í einvíginu við ÍR í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla með fimm stiga sigri, 76-71, í Ljónagryfjunni í kvöld.

ÍR byrjaði leikinn betur, skoraði fyrstu sex stigin og leiddi eftir 1. leikhluta, 13-17. Vörn Breiðhyltinga var grjóthörð og Njarðvíkingar fengu engin auðveld skot.

En þegar sóknin er stirð er gott að eiga Loga Gunnarsson uppi í erminni. Hann kom inn á, byrjaði að negla niður skotum og hélt sínum mönnum á floti á erfiðustu köflunum. Njarðvíkingar unnu sig alltaf betur og betur inn í leikinn og vörn þeirra var þétt. Jeb Ivey lokaði fyrri hálfleiknum með sinni annarri körfu og kom Njarðvík þremur stigum yfir, 37-34.

Njarðvíkingar byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega, skoruðu fyrstu sjö stig hans og voru þá búnir að skora 14 af síðustu 15 stigum leiksins.

ÍR-ingar héldu þó sjó, ekki síst fyrir tilstuðlan Kevins Capers sem var heitur í 3. leikhluta. Undir lok hans ofhitnaði hann hins vegar, sló Jón Arnór Sverrisson í andlitið og var hent út úr húsi.

Við ótímabært brotthvarf Capers þyngdist róður ÍR-inga. Þeir sýndu þó mikinn styrk og þegar ein og hálf mínúta var eftir jafnaði Matthías Orri Sigurðarson í 71-71.

Einar Árni Jóhannsson tók leikhlé og að því loknu setti Elvar Már Friðriksson niður þriggja stiga skot og kom Njarðvík aftur yfir. Hákon Örn Hjálmarsson gat jafnað í síðustu sókn ÍR en skot hans geigaði. Elvar setti svo niður tvö víti og kláraði dæmið. Lokatölur 76-71, Njarðvík í vil.

Hvers vegna vann Njarðvík?

Njarðvíkingar hafa oft spilað betri sóknarleik en í kvöld. Þeir hittu þó vel fyrir utan þriggja stiga línuna (40%) á meðan ÍR-ingar voru kaldir þar (23%).

Breiddin í liði Njarðvíkur er mikil og þeir fengu mikilvægt framlag frá nokkrum leikmönnum á ýmsum köflum í leiknum. Undir lokin var það Elvar Már sem gerði gæfumuninn.

Það er ekki hægt að horfa framhjá brottrekstri Capers sem gerði liðsfélögum sínum engan greiða með athæfi sínu. Breiðhyltingar voru þó nálægt því að landa sínum öðrum sigri í röð í Njarðvík.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og áður sagði áttu margir leikmenn Njarðvíkur góða kafla í leiknum en enginn var heitur allan tímann. Logi var frábær í fyrri hálfleik en stigalaus í þeim seinni, Ivey átti sína spretti og Elvar Már var öflugur undir lokin. Maciej Baginski var góður og Ólafur Helgi Jónsson átti flottan leik í vörninni og varði m.a. fjögur skot. Njarðvíkingar unnu þær mínútur sem hann var inn á vellinum með 15 stigum.

Líkt og í deildarleiknum í Ljónagryfjunni var Sigurður Þorsteinsson öflugur í liði ÍR. Hann skoraði 20 stig og tók tíu fráköst. Capers var góður í 3. leikhluta og Matthías Orri Sigurðarson lét til sín taka undir lokin og leiddi endurkomu ÍR-inga ásamt Sigurði.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar hittu illa fyrir utan og fengu átta færri stig af bekknum en Njarðvíkingar. Breiðhyltingar hefðu þurft jafnara framlag frá sínum lykilmönnum og þá hjálpaði ekkert að hafa Capers ekki inn á vellinum í 4. leikhluta.

Hvað gerist næst?

Annar leikur liðanna fer fram í Seljaskóla á sunnudaginn. ÍR-ingar verða þar væntanlega án Capers.

Einar Árni: Logi kom okkur í gang

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var kátur eftir torsóttan sigur á ÍR í kvöld.

„Var þetta ekki eins og allir reiknuðu með? Stál í stál og mikil spenna. Þetta var ekkert sérstaklega góður leikur en það er sjaldnast svoleiðis í byrjun úrslitakeppninnar. Það er pínu íþyngjandi staða fyrir heimaliðið að eiga að vinna og annað í þeim dúr,“ sagði Einar Árni eftir leik.

Hann byrjaði mjög illa fyrir Njarðvíkinga og sókn þeirra var mjög stirð. Því var innkoma Loga Gunnarssonar af bekknum mjög mikilvæg en hann skoraði 15 stig í fyrri hálfleik á meðan aðrir lykilmenn fundu ekki taktinn.

„Þeir köstuðu á okkur svæðisvörn, við hikstuðum og skoruðum lítið. Síðan náðum við betri takti,“ sagði Einar Árni.

„Eins og við vitum er Logi mjög öflugt vopn. Hann kom okkur í gang og það tók hrollinn úr mönnum. Þetta er hans styrkur; hann getur skorað mikið á skömmum tíma. Hann er ferskur og við höfum farið vel með hann í vetur.“

Einar Árni hefði viljað sjá sína menn spila betur á ýmsum sviðum í kvöld en tók ekkert af ÍR-ingum sem léku á löngum köflum vel.

„Ég gæti sagt að svæðisvörnin þeirra hafi komið mér á óvart en það kom ekkert þvílíkt á óvart. Borche [Ilievski, þjálfari ÍR] er duglegur að bjóða upp á ýmis varnarafbrigði. Liðin þekkjast orðið mjög vel. Þeir samt eftir að bjóða okkur upp á aðrar varnir og hver veit nema við gerum slíkt hið sama,“ sagði Einar Árni að endingu.

Borche: Allir þurfa að spila af tvöföldum krafti

„Hvert einasta tap er erfitt. Sérstaklega þetta þegar úrslitin ráðast á einni sókn undir lokin. Þetta er blóðugt. Við ákváðum að spila 3-2 svæðisvörn í lokasókn Njarðvíkur en Elvar [Már Friðriksson] setti niður stórt skot. Svona er þetta,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir tapið nauma fyrir Njarðvík í kvöld.

„Í síðustu sókn okkar fékk Hákon [Örn Hjálmarsson] opið skot en það geigaði. Í næsta leik þurfum við væntanlega að spila án Kevins.“

Borche vísaði þar til Kevins Capers sem var hent út úr húsi undir lok 3. leikhluta fyrir að slá til Jóns Arnórs Sverrissonar. Borche segist ekki hafa séð atvikið en setti ekki út á dóminn.

„Ég sá þetta eiginlega ekki. Ég sá Jón Arnór bara detta og svo þegar dómararnir ráku Kevin út af. Þeir studdust við myndband og sáu þetta betur. Ég efast ekki um að þeir hafi tekið rétta ákvörðun,“ sagði Borche.

Capers er að öllum líkindum á leiðinni í bann vegna brotsins. En geta ÍR-ingar spjarað sig án hans?

„Allir aðrir þurfa að spila af tvöföldum krafti. Það er eina lausnin,“ sagði Borche sem spilaði með svæðisvörn stóran hluta leiksins í kvöld.

„Ég var ánægður með hana á köflum en svo datt hún niður. Það er ekki hægt að spila fullkominn leik og þegar uppi var staðið gerðum við fleiri mistök en Njarðvík.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira