Körfubolti

Giannis komst í fámennan hóp með Shaq

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo.
Giannis Antetokounmpo. Getty/Stacy Revere

Giannis Antetokounmpo hefur fylgt því eftir að vera kosinn mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í fyrra með því að leiða Milwaukee Bucks til sigurs í 25 af fyrstu 29 leikjum sínum í ár.

Það gæti orðið erfitt að finna einhvern sem ætti frekar að vera kosinn mikilvægastur á þessu tímabili.

Milwaukee Bucks vann Los Angeles Lakers í toppslag í nótt og þar komst Giannis Antetokounmpo í fámennan hóp með Shaquille O'Neal.

Þeir tveir eru nefnilega þeir einu í NBA frá 1976-77 tímabilinu sem hafa náð þrettán leikjum röð með 25 stig eða meira jafnframt því að hitta úr meira en helmingi skota sinna.



Shaquille O'Neal náði þessu í þrettán leikjum í röð með Los Angeles Lakers frá 7. janúar til 20. febrúar 2001.

Tímabilið 2000-01 var Shaquille O'Neal 28 ára gamall og hann endaði það með 28,7 stig, 12,7 fráköst, 3,7 stoðsendingar og 2,8 varin skot að meðaltali í leik auk þess að nýta 57 prósent skota sinna. Shaq var samt ekki kosinn mikilvægasti leikmaðurinn eins og árið áður því sá heiður fór til Allen Iverson hjá Philadelphia 76ers.

Los Angeles varð hins vegar NBA-meistari og Shaquille O'Neal var valinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna.

Giannis Antetokounmpo er enn bara 25 ára gamall og í vetur er hann með 31,7 stig, 12,8 fráköst, 5,3 stoðsendingar og 1,2 varin skot að meðaltali í leik auk þess að nýta 56 prósent skota sinna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×