Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Tinda­stóll 92-84 | Stólarnir lentu á vegg í Hellinum

Ívar Halldórsson skrifar
vísir/bára

ÍR tók á móti Tindastól í Hertz-hellinum í Dominos-deild karla í kvöld. Fyrir leikinn var ÍR í 7. sæti með 10 stig en Tindastóll í 1.-3. sæti með 14 stig.ÍR-ingar byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrstu sjö stig leiksins. Tindastóll náði síðan ágætis áhlaupi og komust yfir í 12-15 en þá settu heimamenn niður 10 stig í röð. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-19.Stólarnir náðu ágætis flugi í öðrum leikhluta og komust fimm stigum yfir, 33-38, en þá náðu heimamenn góðum kafla og komust yfir í 46-43. Gestirnir minnkuðu svo muninn í eitt stig og staðan í hálfleik 46-45 fyrir ÍR.ÍR-ingar byrjuðu þriðja leikhluta betur og skoruðu fyrstu sex stigin, staðan þá orðin 52-45. Þá tóku gestirnir frá Skagafirði við sér og minnkuðu muninn í 54-53.Gerel Simmons virtist vera að koma Stólunum yfir í 55-54 en fékk dæmdan á sig ruðning og eftir það missti sóknarleikur þeirra allt flug og heimamenn komust 10 stigum yfir. Góðar lokamínútur í leikhlutanum hjá Tindastól komu þeim aftur inn í leikinn og staðan að þremur leikhlutum loknum 66-61 fyrir ÍR.Heimamenn héldu forskoti sínu út fjórða leikhluta en mesta spennan myndaðist þegar Jaka Brodnik setti niður þriggja stiga skot og minnkaði muninn í þrjú stig þegar þrjár mínútur voru til stefnu. Eftir það skoruðu heimamenn fimm stig í röð og gerðu út um leikinn og urðu lokatölur 92-84. Sterkur sigur ÍR.Af hverju vann ÍR?

Þeir mætta ákveðnir og með mikinn vilja til leiks. Georgi Boyanov var frábær og mjög aggresívur undir körfunni, bæði í því að skora og taka fráköst. ÍR-ingar spiluðu betri varnarleik og voru yfir allan seinni hálfleik og náðu að halda því út til loka leiksins.Tindastóll náði aldrei að spila sinn leik, þetta var ekki þeirra dagur og þeir voru mikið að tapa boltum og reyna erfið skot. Veðrið fyrir norðan í vikunni truflaði æfingar hjá Tindastól en það vildi Baldur þjálfari liðsins ekki nota sem afsökun eftir leikinn.Besti maður vallarins

Georgi Boyanov fær þau verðlaun. Skilaði góðu framlagi bæði í sókn og vörn og var ákveðinn undir körfunni. Var með 27 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar, þar af 7 sóknarfráköst.Hvað gerist næst?

ÍR-ingar fara upp í 5. sæti með þessum sigri og hafa nú unnið 6 leiki, einum leik minna en Tindastóll sem situr í 3. sæti. Í næstu viku verður síðasta umferð ársins, þá mætir Tindastóll Grindvíkingum heima á Sauðárkróki á meðan ÍR-liðið fer í heimsókn til Keflavíkur.Hörkuleikir fyrir bæði lið.

Borche: Áttum ekki efni á því að tapa

Borche Ilievski þjálfari ÍR var að vonum sáttur með sigur síns liðs.„Ég er mjög sáttur með frammistöðuna, sérstaklega varnarleikinn. Við áttum ekki efni á því að tapa fleiri leikjum eftir Grindavíkurleikinn. Við stjórnuðum leiknum mestallan tímann en auðvitað er Tindastóll gott lið sem gefst ekki upp og voru alltaf nálægt okkur en við náðum sem betur fer að halda þetta út.“ÍR-liðið kom mjög ákveðið og sterkt til leiks:„Við byrjuðum leikinn mjög vel en síðan koma þeir til baka sem er eðlilegt, stærsta hluta leiksins var þetta jafn leikur. Við gerðum útslagið í þriðja leikhluta og náðum að halda yfirburðum restina af leiknum en auðvitað gat allt gerst. Þeir fengu nokkur opin skot í lokin sem þeir klúðruðu, sem betur fer fyrir okkur. Þetta var erfiður leikur.“ÍR var án nokkura leikmanna í leiknum:„Arnór er veikur og Davíð kjálkabrotinn. Við erum frekar óheppnir með þessi meiðsli á leiktíðinni, vonandi verður árið 2020 betra hvað það varðar,“ sagði Borche að lokum.Baldur: Nota aldrei afsakanir

Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Tindastóls var svekktur með tapið í kvöld:„Það er leiðinlegt að tapa, ÍR-ingarnir voru mjög góðir í dag en við þurfum að gera betur. Þeir voru mjög góðir en við getum gert betur í ýmsum hlutum.“Tindastóll átti erfitt með að ná sér í stig í þriðja leikhlutanum. Um það sagði Baldur:„Í sjálfu sér vorum við ekki að finna nógu góðar glufur á vörninni þeirra á þessum tíma. Þeir voru bara þéttir og auðvitað eigum við að geta fundið einhverjar opnanir þannig að við munum vinna í því að gera það.“Það var mikið óveður í vikunni og þá sérstaklega á norðurhluta landsins þar sem Tindastólsliðið æfir og spilar sína heimaleiki.„Við æfðum ekki í gær og daginn áður æfðum í myrkri, það var náttúrulega rafmagnslaust, þannig það hefur einhver áhrif en í sjálfu sér þýðir ekkert að ræða það, það er bara partur af þessu. Ég nota aldrei afsakanir, við þurfum bara að gera betur til að vinna.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.