Umfjöllun og viðtöl: Haukar - ÍR 101-82 | Breiðhyltingum skellt í Hafnarfirði

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Haukar unnu stórsigur á ÍR í Ásvöllum í kvöld, 101-82. Heimamenn náðu yfirhöndinni í upphafi leiks og gáfu aldrei eftir, þeir leiddu í hálfleik með 13 stigum, 59-46.



Liðin byrjuðu vel sóknarlega, spiluðu stuttar sóknir og voru að hitta vel. Fljótlega fóru gestirnir að gefa aðeins eftir sóknarlega og Haukarnir refsuðu þeim. Evan Singletary hélt ÍR inní leiknum framan af en staðan eftir fyrsta hlutann 29-22.



Haukur Ólafsson, leikmaður Hauka var öflugur í fyrri hálfleik, hann setti niður 5 þriggja stiga körfur á stuttum tíma þegar Haukar voru með algjöra yfirburði og náðu góðri forystu. ÍR-ingar voru ekki nógu þéttir varnarlega og gáfu heimamönnum alltof mikinn tíma á boltanum sem þeir nýttu sér. Staðan í hálfleik 59-46, Haukum í vil.



Það sem eftir lifði leiks léku Haukar sér að því að spila góðan körfubolta á meðan ÍR reyndi að ná inn áhlaupum. Þeir voru undir í öllum aðgerðum og náðu aldrei neinum alvöru tökum á leiknum. Gestirnir fengu mikið af villum á sig og það var algjörlega ljóst að þeir hefðu vel þegið einn Sigurð Gunnar Þorsteinsson með sér í þessum leik, þeim vantaði smá hæð og þunga gegn þessu sterka liði Hauka.



ÍR skoraði aðeins 12 stig í 3. leikhluta en staðan að honum loknum, 83-58. Heimamenn gáfu ekkert eftir og héldu áfram að keyra á gestina þrátt fyrir góða forystu og unnu að lokum 19 stiga sigur, 101-82.



Afhverju unnu Haukar?

Þeir náðu fljótlega yfirhöndinni á leiknum, þeir voru aggresívir og hittu vel. Heilt yfir voru þeir að spila betri bolta eins og tölurnar gefa til kynna.



Bestu menn vallarins?

Kári Jónsson átti mjög góðan leik, skoraði 17 stig og átti 8 stoðsendingar en Haukur Óskarsson var virkilega heitur í fyrri hálfleik og skoraði 15 stig, hitti vel úr þriggja stiga skotunum sínum framan af en lét lítið fyrir sér fara í þeim síðari. Gerald Robinson og Flenard Whitfield voru hins vegar stigahæstir í liði heimamanna með 20 stig hvor.



Collin Pryor var stigahæstur í liði ÍR með 23 stig og Evan Singletary rétt á eftir honum með 22.



Hvað gekk illa?

ÍR gekk illa varnarlega náðu lítið af fráköstum og fengu mikið af klaufalegum villum. Haukar gengu á lagið og náðu að keyra vel á þá á hörkunni sem ÍR réði lítið við. Þeir voru undir í öllum aðgerðum í leiknum.



Hvað næst?

Haukar fara í heimsókn á krókinn þar sem þeir mæta Tindastóli á meðan ÍR tekur á móti Fjölni í Breiðholtinu.  



Trausti: Það hefði verið sanngjarnara að tapa með 50 en 20 stigum

„Þeir bara „outmuscle-uðu“ og „outhustle-uðu“ okkur og allt þar á milli“ sagði Trausti Eiríksson, leikmaður ÍR eftir tapið gegn Haukum í kvöld.



„Okkar megin var þetta ekki harður leikur en þeir tóku harkalega á okkur og við svöruðum því ekki.“



„Sóknin gekk illa, um leið og lentum undir þá fóru menn að gera þetta eftir sínu nefi og fylgdu ekki planinu. Varnarlega voru við langt frá mönnum og fylgdum ekki planinu þar heldur, þá fer þetta bara eins og gerði í dag“



„Þeir bara outmuscle og outhustle okkur og allt þar á milli. Það hefði verið sanngjarnara að tapa með 50 en 20, þetta var bara ekki fallegt.“



ÍR vann óvæntan sigur á KR í síðustu umferð, 78-77, en hafa síðan tapað tveimur leikjum eftir það. Trausti segir að liðið þurfi að skoða KR leikinn betur og sjá hvað gekk vel þar



„Við þurfum að byrja á því að skoða KR leikinn og hvað við gerðum vel þar, skoða síðan næstu tvo leiki og reyna að átta okkur á því hvað í fjáranum fór úrskeiðis“



„við þurfum líka að sjá af hverju við náum ekki upp stemningu á útivelli, við höfum verið að spila vel heima en mætum svo Haukum í dag og við þurfum að spila miklu, miklu betur en þetta ef við ætlum að eiga einhvern séns“ sagði Trausti að lokum.

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir




    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.