Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir 83-91 Þór Þ. | Fjórða tap Fjölnis í röð

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/bára
Fjölnir tók á móti Þór frá Þorlákshöfn í fjögurra stiga leik í Dalhúsi í 6. umferð Dominos deildar karla í kvöld.Fjölnir hafði fyrir leik tapað 3 í röð en gestirnir höfðu sigrað Hauka í umferðinni þar á undan.Leikurinn byrjaði rólega en Þórsarar stigu upp í 2. leikhluta og tóku góða forystu með sér inn í hálfleik.Fjölnismenn reyndu hvað þeir gátu að koma til baka í seinni hálfleik og náðu að minnka muninn niður í 4 stig minnst undir lok leiks en það var ekki nóg og Þór sigldi sigrinum í höfn, 91-83.Af hverju vann Þór?

Leikurinn byrjaði rólega hjá gestunum en eftir því sem leið á leikinn fór sóknarleikurinn að fljóta betur og vörnin náði að aðlagast. Þeir voru mun betri aðilinn í 2. og 3. leikhluta og unnu leikinn á því.Hvað gekk illa?

Fjölnismenn voru í brasi sóknarlega í leiknum. Áhlaup þeirra báru lítinn árangur og þegar það var komið að þeim að verjast þá náðu þeir ekki að stoppa Þórsara.Heimamenn voru í eltingarleik allan seinni hálfleikinn og það tók sinn toll af þeim. Þeir náðu ekki að gera nóg í 4. leikhluta til að koma til baka og ná í stigin.Hverjir stóðu upp úr?

Þórsarar deildu stigunum vel innan liðsins en eini 20 stiga maðurinn í dag var Vincent Terrence Bailey með 21 stig. Emil Karel Einarsson átti annan góðan leik og setti 19 stig.Hjá Fjölni voru þrír menn með yfir 20 stig. Viktor Lee Moses, Srdjan Stojanovic og Jere Vucica sáu um skorunina með 28, 25 og 21 stig í þessari röð. Þegar þeir voru ekki á vellinum þá vantaði púður í sóknina og því fór sem fór.Hvað gerist næst?

Þórsarar taka á móti Grindvíkingum í næstu umferð og þar er annað gott tækifæri á að ná í 2 stig.Fjölnismenn eiga erfiðan útileik gegn sterku liði ÍR og þurfa að bæta sinn leik ef þeir ætla að eiga möguleika þar.

Friðrik Ingi: Langt frá því að vera sjálfgefið

„Ég er mjög ánægður með þessi stig.“ var það fyrsta sem Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Þórs, sagði að leikslokum.„Við gerum okkur grein fyrir því að það eru margir 4ja stiga leikir út um allt. Að koma hingað í Grafarvoginn og ná í 2 stig er langt frá því að vera sjálfgefið.“Þórsarar byrjuðu leikinn rólega en í 2. leikhluta fór liðið að spila betur og náði góðri forystu fyrir hálfleik.„Við náðum að skipta aðeins um fókus og fórum í það sem við höfum verið að vinna í og betri gildi. Við náum betri takt, bæði varnarlega og sóknarlega. Við skoruðum á hvern annan í einu leikhléinu.“„Þú getur verið að spila mjög vel og samt verið undir. En þegar þú ert undir og ert ekki búinn að gera þitt besta þá geta menn ekki verið sáttir. Við löguðum það og ég er mjög ánægður með hvernig leikmenn komu inn í 2. leikhlutann. Við lögðum grunninn að sigrinum þar.“Liðið hélt áfram á sömu braut í byrjun seinni hálfleiks en voru nálægt því að missa leikinn niður í 4. leikhluta, þegar Fjölnir fór í eitt lokaáhlaup.„Þegar þú ert að spila á útivelli þá verðurðu að vera skarpari. Þú mátt ekki hleypa heimaliðinu í einhver áhlaup þannig að ég var aldrei í rauninni í rónni í seinni hálfleik.“„Að vera kominn með þetta niður í 6 stig þegar það er 1 og 40 eftir, það er það langur tími að margt getur gerst. Við urðum að skerpa á hlutunum og mér fannst við gera það ágætlega.“Friðrik er mjög ánægður með spilamennskuna undanfarið en segir að margt megi gera betur og að þeir geti ekki slakað neitt á.„Við erum búnir að spila ágætlega í síðustu leikjum, að meðtöldum bikarleiknum á dögunum. En það er fullt af hlutum sem við erum að vinna í og við þurfum að vera betri í. Þetta er hörð deild og það á mikið eftir að gerast, fjörið er bara rétt að byrja og þú verður að vera á tánum.“

Falur: Grófum okkar eigin gröf

Falur Jóhann Harðarson, þjálfari Fjölnis, var fúll að leikslokum eins og hann orðaði það sjálfur enda fékk hann engin stig úr viðureign kvöldsins.„Ég er ósáttur að við getum ekki spilað í 40 mínútur. Við verðum að vera á fullu gasi, í vörn og sókn, til þess að geta spilað í þessari deild. Strákarnir eru að slappa af á allt of mörgum stundum í leiknum.“„Það vantar kannski ekki orku, það vantar meiri skynsemi og meiri áræðni. Við erum of kurteisir.“Það fór allt á niðurleið hjá liðinu í 2. leikhluta og missti liðið Þórsarana of langt fram úr sér fyrir hálfleik.„Það er akkúrat það sem gerðist í 2. leikhluta. Við vorum óskynsamir í sókn og vörn sem varð til þess að þeir fengu þetta forskot og ég er ósáttur með það.“Fjölnisliðið gerði áhlaup í seinni hálfleik og náði að seta smá spennu í þetta undir lokin en það var ekki nóg.„Það var 12 eða 14 stiga munur í hálfleik. Við náðum þessu niður í 4 stig minnst en það fer hellings orka í það. Við getum alveg spilað með þessu liði en það þýðir ekki að vera að slappa af, hvorki í vörn né sókn.“„2. leikhluti eyðilagði leikinn fyrir okkur. Við grófum okkar eigin gröf. Ég ætlaði að vinna hérna í kvöld en það tókst ekki.“Falur endaði hinsvegar á jákvæðum nótum.„Það er stígandi í þessu hjá okkur en eins og ég hef sagt áður, það skiptir engu máli þó við séum að spila vel, við töpum 91-83. Við fáum 0 stig, þeir fá 2 stig og það er það sem skiptir máli í þessari deild.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.