Handbolti

„Ég er kominn með algjört ógeð á þessum brjálaða handboltamanni sem ég bjó til“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson á HM í Þýskalandi í janúar.
Björgvin Páll Gústavsson á HM í Þýskalandi í janúar. Getty/Jörg Schüler
Handknattleiksmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson hefur átt mjög viðburðarríkt ár sem endar síðan á því að hann gefur út opinskáa bók fyrir jólin.

Bók Björgvins heitir „Án filters“ og er afar persónuleg. Hann gefur aðdáendum sínum smá sýnishorn af henni í nýrri færslu á fésbókarsíðu sinni.

Björgvin Páll hefur gengið í gegnum ýmislegt á handboltavellinum á þessu ári en hann missti meðal annars sæti sitt í landsliðinu og tók þá ákvörðun að hætta í atvinnumennsku og snúa aftur heim til Íslands eftir að þessu tímabili lýkur.

Færsla Björgvins Páls er um upplifun hans eftir leik á móti Frökkum á HM í handbolta í janúar. Leik sem íslenska landsliðið tapaði með níu marka mun og Björgvin náði aðeins að verja 1 af 10 skotum sem á hann komu.  

„Ég ætti að vera sofandi á hóteli landsliðsins, í nágrenni við lestarstöðina í Köln. Í langan tíma hef ég reynt að láta einkenni um andlegt og líkamlegt hrun sem vind um eyru þjóta. Fyrir utan erfiðleikana sem fylgja því að eiga við öll þessi einkenni er orðið allt of erfitt að reyna að halda haus og láta eins og ekkert sé innan um liðsfélagana,“ skrifar Björgvin Páll.

Hann heldur áfram og felur ekkert í upplifun sinni um hánótt á kirkjutröppunum fyrir framan dómkirkjuna í Köln.

„Nú þegar mesti gráturinn er yfirstaðinn átta ég mig á því að ég er kominn með algjört ógeð á sjálfum mér, eða öllu heldur þessum brjálaða handboltamanni sem ég bjó til í þeim tilgangi að slökkva á líkamlegum og andlegum vandamálum sem ég hef glímt við í áraraðir. En hvernig komst ég hingað?,“ spyr Björgvin Páll en það má sjá alla færsluna hans hér fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×