Skoðun

Fruman sem varð fullorðin

Silja Dögg Gunnarsdóttir skrifar
Börnum eiga að vera tryggð mannréttindi með lögum, en svo er ekki í öllum tilfellum. Kynfrumugjafi getur í dag óskað eftir nafnleynd og börn hafa því ekki sjálfstæðan rétt til að vita um líffræðilegan uppruna sinn. Uppfæra þarf íslensk lög svo réttindi barna verði tryggð til að þekkja uppruna sinn, ef þau óska þess.

Nú eru til sýninga á Stöð 2 þættir sem heita Leitin að upprunanum. Þar eru sjónvarpsáhorfendur kynntir fyrir fólki sem leitar að líffræðilegum foreldrum sýnum. Í þáttunum fær áhorfandinn innsýn í hversu djúpstæð þráin eftir því að finna líffræðilegan skyldleika getur verið. Þeir sem getnir eru með tæknifrjóvgun með aðstoð kynfrumugjafa, kunna að hafa sömu þrá eftir því að þekkja uppruna sinn og einnig vilja til að fá vitneskju um arfgenga sjúkdóma.

Nágrannaríkin komin lengra

Tæknifrjóvganir eru nýtt fyrirbæri í sögulegu samhengi. Því hefur umræðan um kynfrumugjafir ekki verið áberandi í íslenskri umræðu. Rökin sem færð hafa verið fyrir því að leyfa nafnleynd kynfrumugjafa hafa til dæmis verið þau að ef nafnleynd yrði afnumin væri ólíklegra að fólk gæfi kynfrumur til tæknifrjóvgunar og fólk sem þyrfti á þjónustunni að halda hefði því ekki aðgengi að henni vegna ónógs framboðs. Trompar lögmálið um framboð og eftirspurn á kynfrumum réttindi barns til að þekkja uppruna sinn? Ég tel svo ekki vera. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð fullgildur árið 1992 og lögfestur 2013. Í sáttmálanum felst viðurkenning á því að börn séu sjálfstæðir einstaklingar með eigin réttindi óháð réttindum fullorðinna.

Það er tími til kominn að löggjafinn hér fylgi fordæmi nágrannaríkja okkar og tryggi réttindi allra barna á Íslandi til að þekkja uppruna sinn. Undirrituð hefur lagt fram tillögu ásamt fleiri þingmönnum, um að dómsmálaráðherra setji slíka vinnu af stað og að frumvarp verði lagt fyrir Alþingi eigi síðar en í janúar 2020.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×