Handbolti

Ummæli Kristins og Kristjáns á borð agafnendar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristinn Guðmundsson og Kristján Örn Kristjánsson.
Kristinn Guðmundsson og Kristján Örn Kristjánsson. vísir/bára/samsett
Íþróttadeild hefur fengið staðfest að ummælum Kristins Guðmundssonar og Kristjáns Kristjánssonar hefur verið vísað til aganefndar HSÍ af framkvæmdastjóra sambandsins.

Kristinn er annar af þjálfurum ÍBV en Kristján Örn er leikmaður ÍBV. Þeim var heitt í hamsi eftir leik ÍBV og Aftureldingar á þriðjudaginn.

Kristinn sagði í viðtali við Vísi að dómarateymið í leiknum, Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson, væru lang slakasta dómaraparið í deildinni og annar dómarinn sá slakasti.

Í viðtali við RÚV sagði Kristján Örn að dómararnir hafi farið langleiðina með að eyðileggja leikinn en báðum ummælum hefur nú verið vísað til aganefndar.

„Ég held að Afturelding telji peningana sína mjög dýrt núna. Þeir fengu allt með sér þarna í lokin,“ sagði Kristján Örn meðal annars.

Fróðlegt verður að sjá hvort að Eyja tvíeykið eigi yfir höfði sér refsingu en aganefnd HSÍ hittist alla jafna á þriðjudögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×