Körfubolti

Sigurður án félags | Stefnir á að spila áfram erlendis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður lék afar vel með spútnikliði ÍR á síðasta tímabili.
Sigurður lék afar vel með spútnikliði ÍR á síðasta tímabili. vísir/bára
Körfuboltamaðurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson er án félags þessa stundina eftir að hann yfirgaf herbúðir franska B-deildarliðsins BC Orchies. Hann samdi við félagið í sumar en spilaði aldrei keppnisleik með því.

„Þeir gáfu út fjárhagsáætlun fyrir tímabilið en tveimur dögum fyrir fyrsta leik sagði franska körfuknattleikssambandið að hún stæðist ekki. Ákveðna summu vantaði upp á. Þeir reyndu að dekka hana en það tókst ekki og ég er laus allra mála núna,“ sagði Sigurður í samtali við Vísi í dag.

Hann stefnir að því að spila áfram erlendis og segir það fyrsta kost í stöðunni. Hann segir að það sé þó enginn hægðarleikur að finna sér nýtt félag á þessum tíma.

„Flestöll lið eru búin að manna sig núna þannig að þetta er leiðinleg staða að vera í. En ég er ekki fyrsti körfuboltamaðurinn sem lendir í þessu. Umboðsmaðurinn minn er að leita á fullu,“ sagði Sigurður sem kom heim til Íslands á laugardaginn.

Ef ekkert erlent félag finnst segist Sigurður horfa til Íslands.

„Þá þarf maður að skoða hvað er hægt að gera heima. Maður gefur þessu smá tíma. En eins og staðan er núna erum við að leita úti. Ég hef ekkert spáð í Ísland. Okkur langar að vera úti,“ sagði Sigurður.

Á síðasta tímabili lék hann einkar vel með ÍR sem komst alla leið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn. Sigurður var valinn í liðs ársins í fimmta sinn á ferlinum.

Auk ÍR hefur hann leikið með KFÍ, Keflavík og Grindavík hér á landi. Þá hefur Sigurður leikið sem atvinnumaður í Svíþjóð og Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×