Körfubolti

Darri Freyr: Höfum öll spil á okkar hendi

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Darri Freyr hefur gert frábæra hluti með lið Vals
Darri Freyr hefur gert frábæra hluti með lið Vals vísir/bára

Darri Freyr Atlason, þjálfari Íslandsmeistara Vals, var stóískur eftir leik liðsins gegn Snæfell í Origo-höllinni í Dominosdeild kvenna í kvöld. Valur gjörsigraði Snæfell 110-75.

Nærri helmingur stiganna hjá Val kom inni í teig á meðan að gestirnir áttu í mestu basli með að skora í kringum körfuna. „Við erum náttúrulega frekar stórar miðað við flest lið, líka á vængjunum. Sylvía Rán og Guðbjörg eru vængmenn hjá okkur en væru flottar inni í teig hjá flestum öðrum liðum,“ sagði Darri, enda töluðu hann og Valsstúlkurnar um að þeirra styrkleikar lægju nær körfunni á móti Snæfell.

Þó að þessi leikur hafi ekki verið mjög spennandi má búast við að sá næsti verði öllu jafnari, enda mæta Valsstúlkur þá KR, eina liðinu sem gat unnið þær á seinasta tímabili eftir að Helena Sverrisdóttir bættist í hópinn. Darri Freyr sagði að undirbúningur fyrir þann leik hefðist fyrst núna, enda tækju Valsarar bara einn leik í einu.

Valsliðið virðist miklu sterkara framan af en það var í fyrra og Darri tók undir þá staðhæfingu með semingi. „Á þessum tímapunkti erum við betri [en liðið í fyrra]. Við hefðum unnið leik fimm á móti okkur í fyrra eins og staðan er núna,“ sagði hann en taldi þó að liðið gæti vaxið ennþá meira.

„Við höfum öll spil á okkar hendi til að verða miklu betri en við vorum í fyrra,“ sagði Darri Freyr að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.