Handbolti

Ágúst Elí og Björgvin Páll í stuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst Elí og félagar fara vel af stað í Meistaradeild Evrópu.
Ágúst Elí og félagar fara vel af stað í Meistaradeild Evrópu. vísir/ernir

Ágúst Elí Björgvinsson varði ellefu skot þegar Sävehof vann Sporting, 29-24, í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Sænsku meistararnir hafa unnið alla þrjá leiki sína í riðlinum.

Ágúst Elí stóð allan tímann milli stanganna hjá Sävehof og varði 31% þeirra skota sem hann fékk á sig. Hann varði tvö af þeim þremur vítaköstum sem hann fékk á sig.

Björgvin Páll Gústavsson átti frábæra innkomu hjá Skjern gegn Mors-Thy í dönsku úrvalsdeildinni.

Björgvin kom inn á um miðjan seinni hálfleik, þegar Skjern var sex mörkum undir, og varði átta af þeim 13 skotum sem hann fékk á sig (62%). Það dugði þó ekki til sigurs því Skjern tapaði, 28-25. Elvar Örn Jónsson lék ekki með Skjern í kvöld.

Patrekur Jóhannesson er þjálfari Skjern sem er í 6. sæti deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki.

Strákarnir hans Kristjáns Andréssonar í Rhein-Neckar Löwen töpuðu með fimm marka mun fyrir Melsungen, 31-26, í þýsku úrvalsdeildinni.

Alexander Petersson skoraði tvö mörk fyrir Löwen sem er í 2. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Hannover-Burgdorf sem vann meistara síðustu tveggja ára, Flensburg, í kvöld, 23-22.

Leipzig hafði betur gegn Bergischer í Íslendingaslag, 35-32. Viggó Kristjánsson var ekki á meðal markaskorara hjá Leipzig sem er í 3. sæti deildarinnar. Bergischer er í því tólfta.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm mörk fyrir Bergischer en Ragnar Jóhannsson komst ekki á blað.

Þá steinlá Kristianstad fyrir Malmö, 20-30, á heimavelli í sænsku úrvalsdeildinni. Teitur Örn Einarsson skoraði tvö mörk fyrir Kristianstad en þurfti til þess níu skot. Ólafur Guðmundsson skoraði eitt mark.

Þetta var fyrsta tap Kristianstad á tímabilinu en liðið vann fyrstu fjóra leiki sína í sænsku deildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.