Sport

Komst í spretthlaupslandslið Bandaríkjanna aðeins tíu mánuðum eftir barnsburð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allyson Felix er ein af sigursælustu frjálsíþróttakonum sögunnar.
Allyson Felix er ein af sigursælustu frjálsíþróttakonum sögunnar. Getty/Patrick Smith/

Sexfaldi Ólympíumeistarinn Allyson Felix var valinn í HM-hóp Bandaríkjamanna fyrir heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum sem fer fram í Doha í Katar 27. september til 6. október.

Allyson Felix mun taka þátt í níunda heimsmeistaramótinu í röð og setja með því met en þetta stóð ansi tæpt hjá henni að þessu sinni.

Hinn 33 ára gamla Allyson Felix varð nefnilega móðir í fyrsta sinn fyrir aðeins tíu mánuðum síðar. Hún átti barnið með keisaraskurði.Barneign Allyson Felix vakti sérstaka athygli þegar hún skrifaði opið bréf til íþróttavöruframleiðandans Nike og hafði það í gegn að íþróttakonur missi ekki styrktarsamninga sína þegar þær verða óléttar.

Allyson Felix verður í boðhlaupssveitinni í 4 x 400 metra hlaupinu. Hún reyndi að vinna sér þátttökurétt í 400 metra hlaupinu í úrtökumótinu í Des Moines í Iowa í júlí en náði því ekki.

Alls var 141 frjálsíþróttamaður valinn í bandaríska landsliðið, átta þeirra hafa orðið heimsmeistarar áður og þrettán unnu gull á ÓL í Ríó fyrir þremur árum.

Auk Allyson Felix eru heimsmeistararnir Tori Bowie, Kori Carter, Emma Coburn, Phyllis Francis, Justin Gatlin, Sam Kendricks, Brittany Reese og Christian Taylor í hóp Bandaríkjamanna.

Allyson Felix hefur unnið alls ellefu gullverðlaun, þrenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun á heimsmeistaramótum sínum í gegnum tíðina. Hún tók fyrst þátt á HM í Saint-Denis í Frakklandi 2003 en þá var hún aðeins sautján ára gömul.

Fyrstu verðlaunin vann hún í 200 metra hlaupi á HM í Helsinki 2005 (gull) en hún vann þrenn verðlaun (2 gull og 1 brons) á síðasta HM sem fór fram í London fyrir tveimur árum.

Hinn 37 ára gamli Justin Gatlin er einn af heimsmeisturunum en tognun hans í 100 metra hlaupi í Zagreb 3. september síðastliðinn var ekki alvarlega. Gatlin vann gull í 100 metra hlaupi á HM í London en það var púað á hann í verðlaunaafhendingunni þar sem Gatlin hefur fallið oftar en einu sinni á lyfjaprófi á ferlinum.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.