Körfubolti

Þjóðverjar töpuðu fyrir Dóminíska lýðveldinu á HM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Victor Liz átti flottan leik með Dóminíska lýðveldinu.
Victor Liz átti flottan leik með Dóminíska lýðveldinu. Mynd/Fiba
Dóminíska lýðveldið er með fullt í sínum riðli á HM í körfubolta í Kína eftir sigur á Þýskalandi í annarri umferð riðlakeppninnar í dag.

Þýskaland hefur þar með tapað tveimur fyrstu leikjum sínum en bara með sex stigum samanlagt. Þessi töp þýða væntanlega það að þýska liðið kemst ekki upp úr riðlinum.

Dóminíska lýðveldið vann leikinn 70-68 en Þjóðverjar áttu lokasókn leiksins en buðu þá upp á loftbolta í þriggja stiga skoti. Victor Liz skoraði 17 stig fyrir dóminíska lýðveldið og Eloy Vargas var með 16 stig.  NBA-maðurinn Dennis Schroder var með 20 stig og 7 stoðsendingar fyrir þýska liðið.

Tékkar unnu flottan sigur á Japan. Jaromir Bohacik og Blake Schilb skoruðu báðir 22 stig og þá var Chicago Bulls maðurinn Tomas Satoransky var með 15 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst.

Nýsjálendingar fögnuðu sínum fyrsta sigri með því að leggja Svartfellinga 93-83. Svartfjallaland hefur tapað báðum sínum leikjum. Corey Webster var með 25 stig, 7 stoðsendingar og 6 fráköst fyrir Nýja-Sjáland og Isaac Fotu skoraði 20 stig.

NBA-mennirnir Patty Mills og Joe Ingles voru flottir þegar Ástralía vann Senegal sannfærandi. Patty Mills skoraði 22 stig og Joe Ingles var einni stoðsendingu frá þrennunni með 17 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.

Úrslitin á HM í körfubolta í Kína í morgun:

E-riðill: Japan - Tékkland 76-89

F-riðill: Svartfjallaland - Nýja Sjáland 83-93

G-riðill: Þýskaland - Dóminíska lýðveldið 68-70

H-riðill: Ástralía - Senegal 81-68




Fleiri fréttir

Sjá meira


×