Skoðun

Plastlaus september

Heiður Magný Herbertsdóttir skrifar
Ánægjulegt er að segja frá því að nú í þriðja skipti fer árvekniátakið Plastlaus september af stað. Á þessum tveimur árum síðan átakið fór fyrst af stað hefur mikið vatn runnið til sjávar. Tölur frá Sorpu sýna að plast skili sér betur til endurvinnslu og hlutfall þess fer minnkandi í almennu heimilissorpi.

Aðgengi og úrval af plastlausum vörum hefur stóraukist og nú má finna í almennum matvöruverslunum plastminni og plastlausar vörur. Þegar farið er í matvörubúð má sjá að framleiðendur eru farnir að leita leiða til þess að minnka pakkningar sínar. Sem dæmi má nefna pakkningar af kjöti þar sem leitast er við að minnka plastið og byrjað að nota pappa með. Á þessar pakkningar eru komnar leiðbeiningar um hvernig þær skal flokka, til þess að einfalda neytandanum lífið.

Einnig er hægt kaupa bambustannbursta og bambuseyrnapinna í helstu matvörubúðum. Þetta sýnir að það er eftirspurn eftir plastminni vörum og að einstaklingar hafa áhrif þegar þeir velja vörur.

Plastlaus september snýst um það að minnka neyslu, velja fjölnota umbúðir fram yfir einnota. Átakið snýst ekki um að vera fullkomlega plastlaus í september heldur að finna sér markmið í mánuðinum til að minnka neyslu á einnota plastumbúðum.

Talað er um að það taki 21 dag að breyta venjum sínum. Hvet ég því alla til að taka þátt í átakinu með því að setja sér markmið við hæfi í mánuðinum. Því margar litlar breytingar verða að einni stóri og getum við öll haft áhrif. Höfum jákvæðnina að leiðarljósi í breyttum neysluvenjum og hrósum hvert öðru fyrir það sem er vel gert.

Hægt er að kynna sér átakið nánar á vefsíðunni plastlausseptember.is.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×