Körfubolti

Besti leikmaður NBA bara í 78. sæti yfir stigahæstu leikmenn HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo hefur verið í smá basli á HM í Kína til þessa.
Giannis Antetokounmpo hefur verið í smá basli á HM í Kína til þessa. Getty/Shi Tang

Heimsmeistaramótið í körfubolta í Kína hefur ekki byrjað alveg nógu vel fyrir besta leikmann NBA deildarinnar á síðustu leiktíð.

Giannis Antetokounmpo spilar með gríska landsliðinu sem hefur einn sigur í fyrstu tveimur leikjum sínum og er því enn ekki öruggt með sæti í næstu umferð. Örlög liðsins ráðast í leik á móti Nýja Sjálandi í lokaumferðinni á morgun.

Þar þarf liðið á meiru að halda frá Antetokounmpo en í fyrstu tveimur leikjum heimsmeistaramótsins á móti Svartfjallalandi og Brasilíu.

Giannis Antetokounmpo var kosinn mikilvægasti leikmaðurinn í NBA eftir að hafa farið á kostum með Milwaukee Bucks.

Giannis Antetokounmpo var með 27,7 stig, 12,5 fráköst og 5,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppni NBA og í úrslitakeppninni var hann með 25,5 stig, 12,2 fráköst og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Á HM í Kína er hann hins vegar aðeins með 11,5 stig, 6,0 fráköst og 1,0 stoðsendingu að meðaltali í leik. Hann hefur fengið 4,0 villur í leik og fór af velli með fimm villur í tapinu á móti Brasilíu.

Antetokounmpo er eins og er í 78. sæti yfir stigahæstu leikmenn HM í Kína en hann var í 76. sæti eftir leikina í gær. Það má finna allan listann hér.Giannis Antetokounmpo var með 10 stig og 8 fráköst í fyrsta leiknum á móti Svartfjallalalandi en skoraði síðan 13 stig og tók 4 fráköst í öðrum leiknum á móti Brasilíu.

Hann hefur hitt úr undir 45 prósent skota sinna í báðum þessum leikjum og hefur enn ekki sett niður þriggja stiga skot á mótinu. Góðu fréttirnar eru þær að Giannis Antetokounmpo hefur nýtt öll níu vítin sín til þessa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.