Körfubolti

Serbar byrjuðu HM á tæplega 50 stiga sigri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bogdan Bogdanovic og félagar byrjuðu D-riðil af krafti
Bogdan Bogdanovic og félagar byrjuðu D-riðil af krafti vísir/getty
Heimsmeistaramótið í körfubolta hófst í Kína í dag og byrjuðu Serbar mótið af krafti.

Serbar, silfurlið síðasta heimsmeistaramóts, spiluðu við Angóla í fyrsta leik mótsins og fóru Serbar með öruggan 105-59 sigur.

Bogdan Bogdanovic, sem spilar með Sacramento Kings, fór fyrir Serbeum og skoraði 24 stig í leiknum ásamt tveimur fráköstum og þremur stoðsendingum.

Rússar unnu nauman sigur á Nígeríu 82-77. Leikurinn var mjög spennandi og var jafnræði með liðunum allan tímann.

Mikhail Kulagin var stigahæstur í liði Rússa með 16 stig og Andrey Vorontsevich skoraði 14. Josh Okogie fór fyrir Nígeríu með 18 stig.

Þá unnu Pólverjar 80-69 sigur á Venesúela og Púertó Ríkó hafði betur gegn Íran 83-81.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×