Körfubolti

Lék á móti íslenska landsliðinu í Höllinni á dögunum og verður með ÍR í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leiknum í Laugardalshöllinni.
Roberto Kovac í baráttu við Martin Hermannsson í leiknum í Laugardalshöllinni. Mynd/fiba.basketball

Silfurlið ÍR frá síðasta tímabili hefur bætt við sig svissneskum landsliðsmanni en Roberto Kovac hefur gert samning við Breiðholtsliðið.

ÍR-ingar segja frá þessum nýja leikmanni sínum á fésbókarsíðu sinni.

Roberto Kovac lék með svissneska landsliðinu í naumu tapi á móti íslenska landsliðinu í Laugardalshöllinni á dögunum og var þá með 13 stig og 5 stoðsendingar á tæpum 30 mínútum. Það er besti leikur hans í riðlinum hvað varðar stig, stoðsendingar og framlag.

Roberto Kovac er 29 ára gamall og 191 sentimetri að hæð en hann leikur í stöðu skotbakvarðar. Síðustu ár hefur Roberto spilað í heimlandinu með Lions de Genève.  Hann hóf feril sinn með Fribourg Olympic.

Kovac upplifði það og nýju liðsfélagarnir hans á síðustu leiktíð en Ljónin frá Genf töpuðu þá í lokaúrslitum um svissneska meistaratitilinn. Kovac var með 12,8 stig og 1,9 stoðsendingar að meðaltali á 27,8 mínútum en hann hitti meðal annars úr 42 prósent þriggja stiga skota sinna eða 103 af 245.

Kovac mætir íslenska landsliðinu aftur á morgun en þjóðirnar mætast þá í óopinberum úrslitaleik um sigur í riðlinum.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.