Sport

Fljótasti maður heims í vandræðum ári fyrir Ólympíuleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian Coleman.
Christian Coleman. Getty/Lachlan Cunningham

Christian Coleman er fljótasti maður heims á þessu ári en hann gæti verið búinn að koma sér í mikil vandræði ári fyrir Ólympíuleikana í Tókýó.

Rannsókn er farin í gang á því hvernig standi á því að Coleman sé búinn að missa af þremur lyfjaprófum.

Ef Coleman verður fundinn sekur um að hafa vísvitandi skrópað í umrædd lyfjapróf þá á hann yfir höfði sér eins árs bann.

Það myndi þýða að hann missti af bæði HM í Katar í ár sem og Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári.Christian Coleman þarf eins og aðrir íþróttamenn að láta vita af því hvar hann er svo lyfjaeftirlitið eigi möguleika á að hitta á hann í einn klukkutíma á hverjum degi. Hann þarf líka að láta vita af því hvar hann gistir og hvar hann æfir.

Í þessi þrjú skipti var Christian Coleman ekki þar sem hann átti að vera og því gat ekkert lyfjapróf farið fram. Coleman véfengir að minnsta kosti eitt þessara skipta.

Christian Coleman varð bandarískur meistari í 100 metra hlaupi í síðasta mánuði þegar hann kom í mark á 9,99 sekúndum en áður hafði hann náð fljótasta tíma ársins með því að hlaupa 100 metrana á 9,81 sekúndu á Demantamóti í Stanford í Kaliforníu í júní.Coleman er 23 ár gamall og vann silfur á síðasta heimsmeistaramóti sem fór fram í London 2017. Coleman er sjöundi fljótasti 100 metra hlaupari allra tíma. Hann setti síðan heimsmet í 60 metra hlaupi innanhúss á síðasta ári.

Eftir að Usain Bolt hætti bjuggust margir við því að Christian Coleman yrði næsta ofurstjarna spretthlaupanna en þessi vandræði gætu eyðilagt mikið fyrir honum.

Coleman átti að keppa á Demantamóti í Birmingham síðasta föstudag en hætti við þátttöku þar.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.