Körfubolti

Næstu keppnisleikir íslenska karlalandsliðsins í körfubolta verða í undankeppni HM í febrúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leiknum á móti Sviss á miðvikudaginn.
Martin Hermannsson í leiknum á móti Sviss á miðvikudaginn. Mynd/FIBA.basketball
Íslenska karlalandsliðið í körfubolta á ekki lengur möguleika á því að komast á Eurobasket mótið sem fer fram haustið 2021 en íslenska landsliðið þarf þó ekki að bíða fram að næstu undankeppni EM til að spila næstu keppnisleiki sína.

Ísland mun næst taka þátt í forkeppni að undankeppni HM 2023 en sú keppni hefst í febrúar á næsta ári eða eftir hálft ár.

Ísland mun þar keppa við aðrar þjóðir sem duttu út svipuðum tíma og Ísland. Þetta eru þjóðir eins og Hvíta-Rússland, Albanía, Slóvakía, Kýpur, Kósóvó, Lúxemborg og Portúgal sem eru allar í sömu stöðu og Ísland.

Við þetta gæti síðan bæst við þjóðir sem vilja vera með, þjóðir eins og Austurríki, Noregur og Malta svo einhverjar séu nefndar.

Það verður dregið í riðlana í forkeppni undankeppninnar í vetur, annaðhvort í október eða desember, en FIBA á eftir að ákveða það.

Ísland tók síðast þátt í undankeppni HM frá nóvember 2017 fram í júlí 2018. Þar varð íslenska liðið að sætta sig við fjórða sætið í sínum riðli og komst því ekki áfram í aðra umferð undankeppninnar.

Ísland byrjaði þá í fyrstu umferð undankeppni HM en þarf nú að byrja í forkeppninni.

Riðill Íslands í forkeppni undankeppni HM 2023 verður spilaður í febrúar 2020, nóvember 2020 og í febrúar 2021. Vinni íslenska liðið sinn riðil þá tryggir það sér þátttökurétt í fyrstu umferð undankeppni HM 2023. Það er sami hluti og íslenska liðið byrjaði undankeppni HM 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×