Skoðun
Lilja Alfreðsdóttir

Fleiri fyrstu kaup: 250%

Lilja Alfreðsdóttir skrifar

Fram kom í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs á dögunum að hlutfall fasteignakaupenda sem kaupa sína fyrstu íbúð hefði aldrei mælst hærra en nú. Fyrstu íbúðarkaupum hefur almennt fjölgað meira en annars konar íbúðarkaupum sl. 10 ár en á öðrum ársfjórðungi 2019 var hlutfall fyrstu kaupenda 28% samanborið við tæp 8% árið 2009 en það er 250% hlutfallsaukning. Í skýrslunni kemur einnig fram að hærra hlutfall fyrstu íbúðarkaupenda gefi vísbendingar um að auðveldara sé að safna fyrir íbúð en áður.

Stjórnvöld hafa lagt mikla áherslu á að sækja fram í málefnum ungs fólks og barnafjölskyldna. Í lífskjarasamningi aðila vinnumarkaðarins frá því í vor, sem stjórnvöld styðja við með ýmsum hætti, má sjá glögg merki þess að rík áhersla verður lögð á húsnæðismál undir styrkri forystu félags- og barnamálaráðherra. Aðgerðir stjórnvalda auðvelda ungu fólki meðal annars að fjárfesta í fyrstu fasteign með því að heimila notkun á hluta skyldulífeyrissparnaðar til slíkra kaupa en fyrir þeirri leið beitti Framsóknarflokkurinn sér í síðustu kosningum. Hún kemur til viðbótar séreignarsparnaðarleiðinni sem heimilar fólki að nýta viðbótarsparnað sinn í allt að 10 ár til kaupa og afborgana á húsnæði. Eitt helsta markmið lífskjarasamningsins er að tryggja stöðugleika og skapa hagfelld skilyrði til vaxtalækkunar. Ánægjulegt hefur verið að sjá árangur í þá veru en frá því í maí hefur Seðlabanki Íslands tvívegis lækkað stýrivexti sína, samtals um 0,75%. Sú lækkun kemur öllum lántakendum íbúðalána til góða og eykur ráðstöfunartekjur heimilanna.

Samhliða þessum aðgerðum og fleiri til verða barnabætur hækkaðar og fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í tólf. Að auki hafa frumvarpsdrög um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, nýtt námsstyrkja- og lánakerfi, verið kynnt. Í því felst meðal annars að við munum fella niður 30% af höfuðstól námslána að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og auka stuðning við fjölskyldur með því að veita styrk til framfærslu barna í stað lána eins og gert er í dag.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherraAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Græna planið

Dóra Björt Guðjónsdóttir,Sigurborg Ósk Haraldsdóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.