Innlent

Ósáttur við að blaðberi haldi áfram að bera út eftir að hann virtist gera tilraun til að komast inn um miðja nótt

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr myndbandinu.
Skjáskot úr myndbandinu. Mynd/Skjáskot
Sigurður Þór Helgason, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur, er ósáttur við að blaðberi sem ber út Fréttablaðið í hverfinu fái að halda því áfram eftir að viðkomandi virtist gera tilraun til þess að komast inn á heimili Sigurðar með því að taka í hurðarhún á útidyrahurðinni, um miðja nótt. Myndavélakerfi fyrir utan innganginn á heimilinu náði myndbandi af athæfi blaðberans.

Sigurður vakti athygli á athæfi blaðberans ífærslu í Facebook-hópnum Vesturbærinn, þar sem íbúar Vesturbæjarins geta rætt saman um málefni hverfisins.

„Ég kæri mig ekki um að fá fréttablaðið þegar það fylgir því að tekið sé hurðarhúninn um miðja nótt og nú má hver og einn túlka þær gjörðir. Lét póstdreifingu vita af þessu en viðkomandi er núna búinn að vera áfram að koma með fréttablaðið í viku eftir að þetta atvik kom upp,“ skrifar Sigurður í færslunnni sem vakið hefur töluverða athygli innan hópsins. Póstdreifing sér um að dreifa Fréttablaðinu.

Á myndbandinu má sjá hvar maðurinn kemur að útidyrahurðinni klæddur hönskum. Þar setur hann blaðið inn um bréfalúguna áður en hann tekur í hurðarhúninn og virðist gera tilraun til þess að opna hurðina sem er læst. Því næst má sjá hann hverfa af vettvangi. Umrætt myndband má sjá hér að neðan.

Í samtali við Vísi segir Sigurður að atvikið hafi átt sér stað um miðja nótt þann 7. ágúst síðastliðinn en hann vaknaði um klukkutíma eftir að það átti sér stað, við tilkynningu í símanum um að vart hafi orðið við hreyfingu fyrir utan útidyrahurðina.

Hann hafi ákveðið að kíkja á tilkynninguna vegna þess að viku áður hafði myndavélakerfið tekið upp myndband af blaðbera að bera út blað til þeirra um miðja nótt, og koma aftur klukkutíma síðar og kíkja vandlega inn um gluggann.

„Ég kíkti á það af rælni af því að við vorum búin að sjá hann vera að kanna aðstæður. Þá sá ég þetta og ég bara fríka út. Ég gat ekki sofið þessa nótt, ég hringdi á lögregluna og sýndi þeim myndbandið,“ segir Sigurður. Um sama mann er að ræða í bæði skiptin að sögn Sigurðar og hefur hann borið út Fréttablaðið til Sigurðar undanfarnar vikur.

Segir lögreglu ekkert geta gert

Lögregla kom á vettvang og skoðaði myndbandið en að sögn Sigurðar sagðist lögreglan lítið geta gert þar sem ekki hafi verið framinn glæpur. Því næst var haft samband við Póstdreifingu, sem fyrr segir sér um að dreifa Fréttablaðinu. Segir Sigurður að þar á bæ hafi menn fengið að skoða myndbandið. Sigurður segir að svo virðist sem að það hafi litlar afleiðingar haft fyrir blaðberann, hann sé ennþá að bera út blaðið til þeirra.

Aðspurður hvort hann sé ósáttur með að blaðberinn sé ennþá að bera út blaðið á heimili hans liggur ekki á svörum hjá Sigurði.

„Hrikalega,“ en meðal þess sem kemur fram í færslu Sigurðar á Vesturbæjar-síðunni er að börn hans séu hrædd við tilhugsunina um að umræddur blaðberi haldi áfram að koma að heimili þeirra.

Segist hann því ekki geta sætt sig við það að blaðberinn fái áfram að bera út blaðið á heimili hans. Því hafi hann ákveðið að vekja athygli á myndbandinu til að knýja fram viðbrögð og minna fólk á að læsa vandlega útidyrahurðum.

„Ég vil vara fólk við,“ segir Sigurður og bætir við:

„Ef þetta heldur áfram, hann heldur áfram að koma hérna, þá var því eina ráðið að birta þetta myndband. Það hefði gilt það sama ef ég hefði sagt að blaðberinn væri að gera þetta. Þá hefði kannski einhver ekki trúað mér. Ef ég get ekki tjáð mig um þetta þá get ég ekki varað annað fólk við.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×