Golf

„Leið eins og ég myndi fara að gráta á 18. holu en tárin komu ekki“ | Sjáðu sigurpútt Shibuno á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shibuno sló eftirminnilega í gegn á Opna breska.
Shibuno sló eftirminnilega í gegn á Opna breska. vísir/getty
Hinako Shibuno, tvítugur Japani, kom öllum á óvart með því að vinna Opna breska meistaramótið í golfi.Fyrir Opna breska vissu fáir hver Shibuno var enda hafði hún aldrei áður keppt á risamóti. Hún hafði ekki einu keppt utan Japans. Reynsluleysið kom hins vegar ekki að sök á Woburn-vellinum um helgina.Shibuno tryggði sér sigurinn þegar hún setti niður pútt fyrir fugli á 18. holu. Hefði höggið geigað hefði hún mætt Lizette Salas frá Bandaríkjunum í bráðabana um sigurinn á Opna breska.Sigurpútt Shibunos má sjá hér fyrir neðan.„Mér líður enn eins og ég sé að fara að æla. Ég var mjög stressuð á fyrri níu holunum en það lagaðist á seinni níu,“ sagði Shibuno eftir mótið.Hún fékk fimm fugla á seinni níu holunum. Í gær voru þeir sex. Shibuno lék samtals á 18 höggum undir pari og var einu höggi á undan Salas.„Mér leið eins og ég myndi fara að gráta á 18. holu en tárin komu ekki. Það er taugatrekkjandi að keppa á svona móti en ég ætlaði líka að njóta þess,“ sagði sú japanska.Óhætt er að Shibuno hafi notið þess að keppa á Opna breska. Hún heillaði alla upp úr skónum með glaðlegri framkomu og breiðu brosi.Á síðustu tveimur holunum hló hún og grínaðist með kylfusveini sínum og borðaði sælgæti. Stressið var ekki meira en það hjá Shibuno sem hefur fengið viðurnefnið „brosandi Öskubuskan“.Fyrir sigurinn á Opna breska fékk Shibuno 675.000 Bandaríkjadala, eða rúmar 83 milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.