Golf

„Leið eins og ég myndi fara að gráta á 18. holu en tárin komu ekki“ | Sjáðu sigurpútt Shibuno á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shibuno sló eftirminnilega í gegn á Opna breska.
Shibuno sló eftirminnilega í gegn á Opna breska. vísir/getty
Hinako Shibuno, tvítugur Japani, kom öllum á óvart með því að vinna Opna breska meistaramótið í golfi.



Fyrir Opna breska vissu fáir hver Shibuno var enda hafði hún aldrei áður keppt á risamóti. Hún hafði ekki einu keppt utan Japans. Reynsluleysið kom hins vegar ekki að sök á Woburn-vellinum um helgina.

Shibuno tryggði sér sigurinn þegar hún setti niður pútt fyrir fugli á 18. holu. Hefði höggið geigað hefði hún mætt Lizette Salas frá Bandaríkjunum í bráðabana um sigurinn á Opna breska.

Sigurpútt Shibunos má sjá hér fyrir neðan.



„Mér líður enn eins og ég sé að fara að æla. Ég var mjög stressuð á fyrri níu holunum en það lagaðist á seinni níu,“ sagði Shibuno eftir mótið.

Hún fékk fimm fugla á seinni níu holunum. Í gær voru þeir sex. Shibuno lék samtals á 18 höggum undir pari og var einu höggi á undan Salas.

„Mér leið eins og ég myndi fara að gráta á 18. holu en tárin komu ekki. Það er taugatrekkjandi að keppa á svona móti en ég ætlaði líka að njóta þess,“ sagði sú japanska.

Óhætt er að Shibuno hafi notið þess að keppa á Opna breska. Hún heillaði alla upp úr skónum með glaðlegri framkomu og breiðu brosi.

Á síðustu tveimur holunum hló hún og grínaðist með kylfusveini sínum og borðaði sælgæti. Stressið var ekki meira en það hjá Shibuno sem hefur fengið viðurnefnið „brosandi Öskubuskan“.

Fyrir sigurinn á Opna breska fékk Shibuno 675.000 Bandaríkjadala, eða rúmar 83 milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×