Golf

Brosandi Öskubuskan vann óvæntan sigur á Opna breska

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shibuno fagnar eftir að hafa sett niður sigurpúttið.
Shibuno fagnar eftir að hafa sett niður sigurpúttið. vísir/getty

Hin tvítuga Hinako Shibuno kom, sá og sigraði á Opna breska meistaramótinu í golfi, síðasta risamóti ársins í kvennaflokki.

Sigur hinnar japönsku Shibuno var afar óvæntur. Þetta var ekki bara hennar fyrsta risamót á ferlinum heldur fyrsta mótið sem hún keppir á utan heimalandsins.

Shibuno, eða brosandi Öskubuskan eins og hún er kölluð, heillaði alla upp úr skónum á Woburn-vellinum með skemmtilegri og glaðlegri framkomu.


Hún brosti breitt alla helgina en aldrei breiðar eftir að hún setti niður pútt fyrir fugli á 18. holu og innsiglaði sigurinn.

Shibuno lék á fjórum höggum undir pari í dag og samtals á 18 höggum undir pari. Hún var einu höggi á undan Lizette Salas frá Bandaríkjunum. Hún lék best allra í dag, á sjö höggum undir pari.

Jin Young Ko frá Suður-Kóreu, efsta kona heimslistans, varð þriðja á samtals 16 höggum undir pari. Morgan Pressel frá Bandaríkjunum endaði í 4. sæti á 15 höggum undir pari.

Ashleigh Buhai frá Suður-Afríku, sem var með forystu eftir fyrstu tvo keppnisdagana, endaði í 5. sæti á samtals 14 höggum undir pari.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.