Golf

Shibuno náði forystunni á Opna breska með sex fuglum á síðustu níu holunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Shibuno lék á fimm höggum undir pari í dag.
Shibuno lék á fimm höggum undir pari í dag. vísir/getty
Hinako Shibuno frá Japan er með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn á Opna breska meistaramótinu í golfi, fimmta og síðasta risamóti ársins hjá konunum.

Shibuno lék frábærlega á seinni níu holunum í dag þar sem hún fékk sex fugla. Hún lék á fimm höggum undir pari í dag.



Sú japanska komst þar með upp fyrir Ashleigh Buhai frá Suður-Afríku. Hún var með þriggja högga forystu eftir fyrstu tvo hringina og náði mest fimm högga forystu í dag.

Öfugt við Shibuno gaf Buhai eftir á seinni níu holunum sem hún lék á þremur höggum yfir pari. Buhai var á pari í dag og er samtals á tólf höggum undir pari.

Sung Hyun Park frá Suður-Kóreu er þriðja á samtals ellefu höggum undir pari. Hún lék á fjórum höggum undor pari í dag.

Morgan Pressel frá Bandaríkjunum lék mjög vel í dag, eða á sex höggum undir pari. Hún er í 4. sæti á samtals tíu höggum undir pari ásamt löndu sinni, Lizette Salas, og efstu konu heimslistans, Jin Young Ko frá Suður-Kóreu.

Georgia Hall, sem vann Opna breska í fyrra, er í 27. sæti, tíu höggum á eftir Shibuno.



Bein útsending frá lokadegi Opna breska hefst klukkan 11:00 á Stöð 2 Golf á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×