Körfubolti

Kristófer Acox gerir nýjan samning við KR

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kristófer og Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, fara yfir samninginn
Kristófer og Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, fara yfir samninginn Twitter/KR
Íslenski körfuknattleiksmaðurinn Kristófer Acox undirritaði tveggja ára framlengingu á samningi sínum við Íslandsmeistara KR í gær.

Kristófer var algjör lykilmaður hjá KR í Dominos-deildinni á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í 5.sæti deildarkeppningar en vann úrslitakeppnina á eftirminnilegan hátt, sjötta árið í röð.

Kristófer er sömuleiðis í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og á 40 A-landsleiki að baki.

Þessi 25 ára gamli leikmaður skilaði 14,2 stigum að leik í meðaltali ásamt því að rífa niður 9,7 fráköst að meðaltali. Hann fór upp í gegnum yngri flokka KR og hefur ekki leikið með neinu öðru félagi hér á landi en hefur hins vegar reynt fyrir sér í Bandaríkjunum, Frakklandi og á Filippseyjum.

Íslandsmeistararnir ætla augljóslega ekki að slá slöku við og stefna ótrauðir á sjöunda Íslandsmeistaratitilinn í röð enda er Vesturbæjarliðið búið að klófesta eftirsóttustu bitana á leikmannamarkaðnum í sumar í bræðrunum Matthíasi Orra og Jakobi Erni Sigurðarsonum auk þess sem Brynjar Þór Björnsson sneri einnig heim í Vesturbæinn frá Sauðárkróki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×