Hlynur bætti eigið met

Langhlauparinn Hlynur Andrésson sem hleypur fyrir ÍR bætti um helgina eigið Íslandsmet í 5.000 metra hlaupi þegar hann hljóp á móti í Belgíu. Fyrra met Hlyns hafði staðið í 15 mánuði.
Hlaupið var í fjórum riðlum á mótinu og hafnaði Hlynur í níunda sæti í sínum riðli á tímanum 13:57,89 mínútum. Fyrra met hans var sett í Bandaríkjunum í apríl í fyrra og var 13:58,91 mínútur.
Þetta er í þriðja sinn sem Hlynur bætir Íslandsmetið í greininni en hann bætti sjö ára gamalt met Kára Steins Karlssonar í apríl árið 2018. Þá hljóp hann á 14:00,83 mínútum en met Kára Steins var 14:01,99 mínútur.
Hlynur á einnig Íslandsmetin í 10.000 metra hlaupi, 29:20,92 mínútum, og 10 kílómetra götuhlaupi 29:49 mínútur en hann bætti einnig met Kára Steins í 10.000 metra hlaupi. Íslandsmetið í 10 kílómetra götuhlaupi var hins vegar 36 ára gamalt Íslandsmet Jóns Diðrikssonar.
Þá á hann einnig Íslandsmetið í 3.000 metra hindrunarhlaupi 8:44,11 mínútur.