Handbolti

Segja nýja íslenska þjálfara sinn lifa fyrir handboltann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Gunnarsson sem þjálfari Fjölnis.
Arnar Gunnarsson sem þjálfari Fjölnis. vísir/eyþór
Arnar Gunnarsson hefur tekið við þjálfun þýska B-deildarliðsins HSG Krefeld en liðið er nýliða í næstbestu deild Þýskalands á næstu leiktíð.

Arnar tekur við starfi Ronny Rogawska sem hafði komið HSG Krefeld upp úr C-deildinni á síðustu leiktíð.

Arnar er 41 árs gamall og hefur ágæta reynslu af þjálfun. Hann stýrði síðast á Íslandi liði Fjölnis í Olís deildinni en hafði áður þjálfað bæði hjá Selfossi og á Akureyri. Arnar hefur líka þjálfað í Noregi.

Arnar kom Fjölni upp í efstu deild en hætti með Grafarvogsliðið eftir 2017-18 tímabilið. Hann þjálfari yngri flokka hjá HK síðasta vetur.





HSG Krefeld segir frá nýja þjálfara sínum í frétt á heimasíðu sinni. Þar kemur fram að þau lið sem Arnar þjálfaði á Íslandi hafi ekki haft mikinn pening til að eyða í leikmenn og hann hafi búið við þröngan kost.

Arnar vann hug og hjörtu stjórnanda HSG Krefeld í tveggja daga heimsókn sinni til félagsins. Handboltaheimspeki hans, ástríða hans og góður árangur með að vinna með unga leikmenn var það sem heillaði yfirmenn HSG Krefeld.

„Arnar er ótrúlega metnaðarfullur og vandvirkur þjálfari sem hugsar um öll smáatriði. Hann lifir fyrir handboltann og þannig þjálfara vildum við fá. Bæði liðið sem og hver og einn leikmaður mun taka framförum undir hans stjórn,“ sagði Thomas Wirtz, framkvæmdastjóri félagsins í fréttinni.

Arnar mætir til Krefeld á miðvikudaginn og fær einskonar kynningarleik á móti TuSEM Essen á föstudaginn. Sá leikur er hugsaður sem tækifæri fyrir hann til að kynnast betur nýju lærisveinum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×