Körfubolti

Ung körfuboltastjarna með brjóstakrabbamein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ung körfuboltakona sem hefur verið að gera frábæra hluti í bandaríska háskólaboltanum undanfarin ár fékk skelfilegar fréttir á dögunum.

Tiana Mangakahia, leikstjórnandi Syracuse, hætti við að fara í nýliðaval WNBA-deildarinnar í apríl og ætlaði að taka annað ár með Syracuse liðinu. Nú er það tímabil í miklu uppnámi.

Tiana Mangakahia lét vita að því í gær að hún hafi greinst með brjóstakrabbamein og það var á öðru stigi þegar það uppgötvaðist.





Tiana byrjar í lyfjameðferð í þessari viku og fer síðan í aðgerð. „Þetta er erfitt en ég veit að ég mun komast í gegnum þetta,“ sagði Tiana Mangakahia í yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni.

„Þetta er bara byrjunin hjá mér en ég veit að ég mun koma sterkari til baka. Ég á enn eftir að gera mikið í mínu lífi og ætla mér að sýna og hjálpa öðrum að sigrast á mótlæti,“ skrifaði Mangakahia.

Mangakahia er 24 ára og kemur frá Brisbane í Ástralíu. Á síðasta tímabili var hún í öðru sæti í Bandaríkjunum í stoðsendingum en hún gaf 8,4 slíkar að meðaltali í leik auk þess að vera stigahæsti leikmaður Syracuse liðsins með 16,9 stig í leik.

„Ég get sigrast á þessu og ég mun berjast fyrir þeim sigri. Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn. Ég hef verið að fullu að undirbúa mig fyrir komandi tímabil en núna mun ég einbeita mér að því að sigrast á krabbameininu og koma sterkari til baka,“ skrifaði Tiana Mangakahia.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×