Sport

Fimm íslensk ungmenni inn á topp tíu listum í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/FRÍ

Íslensk frjálsíþróttakrakkar hafa náð frábærum árangri á síðasta ári og það sem af er þessu ári. Alþjóðlegir titlar ungmenna, Íslandsmeistaratitlar og Íslandsmet í fullorðinsflokki hafa fallið í skaut krakka sem enn eru gjaldgeng í flokki unglinga.

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur skoðað betur árangur íslensku krakkanna og þá sérstaklega miðað við afrekalista í Evrópu. Ef Evrópulistar eru skoðaðir þá má sjá að fimm íslenskir krakkar eru á meðal tíu efstu í sínum aldursflokk. Íslendingar geta því sannarlega státað sig af ungmennum sem eru á meðal þeirra bestu í Evrópu.

Efst er Elísabet Rut Rúnarsdóttir sem er önnur á Evrópulistanum í sleggjukasti stúlkna yngri en 18 ára. Þegar árangur með 4 kílóa kvennasleggju er skoðaður þá er hún efst. Þar er árangur hennar 62,16 metrar sem er Íslandsmetið í greininni. Næst er Erna Sóley Gunnarsdóttir sem er þriðja á lista í kúluvarpi yngri en 20 ára. Lengsta kast hennar er 16,13 metrar og er það aldursflokkamet 18-19 ára og 20-22 ára.

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er með Íslandsmeti sínu í 200 metra hlaupi, 23,45 sekúndur, í fjórða sæti Evrópulistans yngri en 20 ára. Fyrir Íslandsmet sitt í 100 metra hlaupi er hún í fimmta sæti. Íslandsmet hennar í þeirri grein er 11,56 sekúndur. Birna Kristín Kristjánsdóttir bætti um helgina eigið aldursflokkamet í langstökki 16-17 ára þegar hún stökk 6,12 metra. Það er sjöundi besti árangur fyrir stúlkur yngri en 18 ára í Evrópu það sem af er ári.

Tiana Ósk Whitworth, sem um helgina bætti 15 ára gamalt Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur áður en að Guðbjörg Jóna bætti það stuttu seinna, er í áttunda sæti yngri en 20 ára fyrir árangur sinn í 100 metra hlaupi. Tími hennar er 11,57 sekúndur, aðeins 1/100 úr sekúndu lakari en tími Guðbjargar. Í 200 metra hlaupi á Tiana best 23,79 sekúndur sem er tólfti besti árangur stúlku yngri en 20 ára í Evrópu.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.