Innlent

Sóttu fót­brotinn göngu­mann við Hrafn­tinnu­sker

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að nokkuð hafi verið um annir hjá þeim björgunarsveitarhópum sem manna hálendisvakt björgunarsveita þessa dagana.
Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að nokkuð hafi verið um annir hjá þeim björgunarsveitarhópum sem manna hálendisvakt björgunarsveita þessa dagana. vísir/vilhelm
Þegar klukkan var að ganga þrjú í dag barst björgunarsveitum Landsbjargar tilkynning um slasaðan göngumann á gönguleiðinni um Laugaveginn, sunnan við Hrafntinnusker.

Björgunarfólk er nú komið að manninum og er búið að hlúa að honum og setja á börur. Bera þarf hinn slasaða um fjögurra kílómetra leið að jeppa og aka honum svo til móts við sjúkrabíl sem flytur hann á sjúkrahús þar sem hann er líklega fótbrotinn.

Í tilkynningu frá Landsbjörg kemur fram að nokkuð hafi verið um annir hjá þeim björgunarsveitarhópum sem manna hálendisvakt björgunarsveita þessa dagana. Töluvert hafi verið um slys og minni háttar óhöpp.

Í gærkvöldi var leitað að konu sem var villt í þoku á gönguleiðinni inn að Öskjuvatni á hálendinu norðan Vatnajökuls. Snjókoma var á svæðinu og eins gráðu frost en í slíku veðri kólnar fólk hratt ef það er ekki vel búið.

Björgunarfólk fann konuna fljótt og fóru með hana í skála við Drekagil þar sem hún fékk hlý föt og heitt að drekka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×