Sport

Þrjú íslensk gull í kastgreinum í Svíþjóð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir kastar spjótinu
Ásdís Hjálmsdóttir kastar spjótinu mynd/frí
Ásdís Hjálmsdóttir, Dagbjartur Daði Jónsson og Hilmar Örn Jónsson fengu öll gullverðlaun á kastmóti í Bottnaryd í Svíþjóð um helgina.

Ásdís stóð uppi sem sigurvegari í spjótkasti með því að kasta 58,53 metrar. Það er hennar besti árangur á árinu en þónokkuð frá Íslandsmeti hennar í greininni sem er 663,43 metrar.

Dagbjartur Daði hefur átt frábært sumar í spjótkastinu og hann hélt áfram uppteknum hætti á mótinu í Svíþjóð. Hann kastaði 78,30 metra á mótinu sem dugði honum til gullverðlauna. Það er einnig aldursflokkamet 20-22 ára.

Í sleggjukasti vann Hilmar Örn Jónsson gullverðlaun með því að kasta 73,96 metra. Hilmar er Íslandsmethafi í greininni en hann setti Íslandsmetið fyrr í vor þegar hann kastaði 75,26 metra.

Á mótinu í Svíþjóð voru margir sterkir keppendur að keppa og í gær kastaði sænski kringlukastarinn Daniel Ståhl lengsta kast greinarinnar í 11 ár þegar hann kastaði 71,86 metra. Kastið er það fjórða lengsta frá upphafi. Þjálfari Ståhl er Íslendingurinn Vésteinn Hafsteinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×